Fjárlög 2004

Föstudaginn 03. október 2003, kl. 12:14:12 (54)

2003-10-03 12:14:12# 130. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., JBjarn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 130. lþ.

[12:14]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Það var mjög heiðarlegt af hv. þm. að viðurkenna að þetta væri stefna Framsfl. að hækka gjaldtöku á sjúklingum og þeim sem fara á heilsugæslustöðvar. Það er bara heiðarlegt að viðurkenna það þó að við séum ósammála um þá stefnu. Það er aftur annað mál.

Sama gildir líka um þá tillögu sem er í fjárlagafrv. um að ríkissjóður nái sér í 740 millj. kr. með því að lækka hlut sinn í lyfjakostnaði í kaupum á hjálpartækjum eða í því að leita sérfræðiþjónustu hjá sérfræðilæknum og auka hlutdeild þeirra. Þetta er þá greinilega líka samkvæmt stefnu Framsfl. að þarna skuli áfram sótt fé.

En mig langar til að spyrja, herra forseti. Er það líka einhuga stefna Framsfl. að núna sé orðið brýnt að selja Landssímann? Ég minni á að í skoðanakönnun sem var gerð fyrir tveimur og hálfu ári var yfirgnæfandi meiri hluti þeirra sem þá ætluðu hugsanlega að kjósa Framsfl. andvígur sölu Landssímans. Og úti um hinar dreifðu byggðir held ég að fólk hugsi frekar um að beita styrk Landssímans til þess að efla og styrkja fjarskiptaþjónustuna. Við fengum heimsókn frá Raufarhöfn nýverið þar sem þeir eru búnir að bíða í nokkur ár eftir því að staðið verði við loforð um að efla fjarskiptaþjónustu til Raufarhafnar.

Er það einlægur vilji og stuðningur Framsfl. við það að nú skuli gengið í að selja Landssímann?