Fjárlög 2004

Föstudaginn 03. október 2003, kl. 12:39:25 (60)

2003-10-03 12:39:25# 130. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., JBjarn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 130. lþ.

[12:39]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Þessi kosningaloforð sem ég taldi upp voru alls ekki tæmandi listi yfir kosningaloforð Framsfl. og Sjálfstfl. fyrir síðustu alþingiskosningar. Þar var línuívilnun sem átti að koma til framkvæmda nú þegar í haust og ekkert átti að vera til fyrirstöðu með það. Það voru jarðgöng um Héðinsfjörð sem áttu að fara í gang og ekkert var til fyrirstöðu með. Þetta var á þessum lista en öllu saman hefur verið, að því er virðist, slegið á frest þannig að orð og efndir eru dálítið mikið á floti.

Ég mundi hins vegar vilja spyrja, virðulegi forseti, þingmanninn: Hvar ætlar Framsfl. að láta þennan niðurskurð sem hlýtur að verða í velferðarkerfinu, í almannaþjónustunni, ef boðaðar skattalækkanir koma til framkvæmda, koma niður? Ég harma það ekkert þó að þessum skattalækkunum hafi verið frestað þó að ég hefði viljað að hinir lægstlaunuðu hefðu fengið skattalækkanir. Ég harma að öðru leyti ekki að skattalækkunum skuli hafa verið frestað því að það mundi eingöngu hafa bitnað á velferðarkerfinu. Nú eiga þær ekki að koma til framkvæmda fyrr en eftir tvö ár, eins og boðað er í stjórnarsáttmálanum.

Virðulegi forseti. Ég vona að þessi ríkisstjórn verði farin áður en kemur að þeim tíma.