Fjárlög 2004

Föstudaginn 03. október 2003, kl. 13:47:34 (63)

2003-10-03 13:47:34# 130. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 130. lþ.

[13:47]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson hélt venju sinni hér í fjárlagafrumvarpsræðum og hélt yfir okkur mikla messu um ýmsa þá þætti í ríkisfjármálunum sem hv. þm. telur ætíð nauðsynlegt að hafa yfir þingheimi. Það var eins og venjulega auðvitað margt merkt af því sem hv. þm. sagði, kom hann þó óvenju lítið eða ekki eins víða við nú og oft áður en lét þó heilbrigðismálin fá nokkurn skammt, m.a. þá fullyrðingu að ekki vantaði peninga í heilbrigðiskerfið. Þá fullyrðingu hefur hv. þm. áður haft á lofti og hefur sagt að hægt væri að bjóða jafngóða þjónustu jafnvel fyrir minni fjármuni en eru í kerfinu í dag.

En ég held, herra forseti, að óhjákvæmilegt sé að hv. þm. deili með okkur einhverju af þekkingu sinni á heilbrigðiskerfinu vegna þess að ég hef heyrt hv. þm. segja þetta nú í fimmta sinni úr þessum ræðustóli við upphaf umræðu um fjárlög. Ég trúi því og treysti að hv. þm. hafi einhverjar tillögur fram að færa aðrar en þær sem hafa verið fram að þessu vegna þess að eins og hv. þm. benti réttilega á hafa öll þessi ár útgjöld til heilbrigðismála vaxið. Vissulega hefur ýmissi þjónustu örugglega fleygt fram en enn eru samt sem áður talin mörg verk sem vinna má betur. Ég held því að nauðsynlegt sé að hv. þm. skýri örlítið fyrir okkur hvaða leiðir eru vænlegastar í því til að bæta jafnvel þjónustuna um leið og dregið er úr kostnaði í heilbrigðiskerfinu.