Fjárlög 2004

Föstudaginn 03. október 2003, kl. 13:58:27 (68)

2003-10-03 13:58:27# 130. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 130. lþ.

[13:58]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég skildi andsvarið þannig eiginlega að hv. þm. væri að biðja mig að halda svolítinn fyrirlestur um gengismál. (JBjarn: Já, þú ert búinn að tala nóg um heilbrigðismálin.)

Ríkið er að vinna skyldustörf sín til þess að rýma fyrir framleiðslunni með því að draga saman, með því að gera sinn hlut minni, þ.e. að passa upp á að aukningin í samneyslunni verði ekki eins mikil á komandi árum og hún hefur verið á undanförnum árum. Það er hluti af því að búa til rými fyrir framleiðsluna. Ríkið er að leggja fram fjárlög og stefnumörkun sem á að gefa, og getur gert nú þegar í dag, tækifæri til vaxtalækkana. Það er gríðarlegt tækifæri til vaxtalækkana og það á að framkvæma þær. Seðlabankinn er að vinna að þessum málum með því að kaupa og efla gjaldeyrisvarasjóðina. Það liggur fyrir stefna hans að fara allt upp í 50 milljarða. Og ég mundi segja, herra forseti, að ég sé ekkert að því að fara upp í 100 milljarða og jafnvel upp í 200 milljarða. Það skiptir ekki máli. Það ber að verja framleiðsluna. Það ber að verja samkeppnishæfni Íslands og kosta því til sem þarf meðan þessi mikli innflutningur vegna framkvæmdanna fyrir austan stendur yfir. Það er hægt. Og ríkið er einmitt með þessum fjárlögum og stefnumörkun sinni að gefa tóninn, er að segja frá því hvað eigi að gera og hverjir eigi að framkvæma það. Það er það sem gerir þessi fjárlög svo merk. Menn eiga að taka eftir þeim og ég veit að viðskiptalífið í heild hefur þegar fagnað þeirri stefnumótun sem ríkisstjórnin leggur hér fram.