Fjárlög 2004

Föstudaginn 03. október 2003, kl. 14:16:35 (73)

2003-10-03 14:16:35# 130. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., HHj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 130. lþ.

[14:16]

Helgi Hjörvar (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ekki nema von að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson skauti hér út og austur um allt annað en það sem til umfjöllunar og afgreiðslu er á þessum fundi. Það er frv. til fjárlaga árið 2004. Ekki vonir manna um það hvað kannski verði hægt að gera árið 2007 því að það liggur ekkert frv. fyrir þessum fundi um skattalækkanir 2007. Engar ákvarðanir hafa verið teknar um þær lækkanir. Þær eru á þessu stigi máls ekkert annað en óskhyggja. Það frv. sem liggur fyrir þessum fundi er frv. upp á skattahækkanir upp á liðlega fjóra milljarða kr. ef tekið er tillit til þess að persónuafsláttur er ekki látinn fylgja launavísitölu og þannig eru skattbyrðar hinna lægstlaunuðu þyngdar. Ríflega fjóra milljarða kr. frá þessum flokkum sem fyrir aðeins örfáum mánuðum boðuðu kjósendum sínum skattalækkanir. Skattalækkanir.

Það frv. sem hér liggur fyrir er um skattahækkanir. Og hvernig sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson reynir að skauta fram hjá því út í borgarstjórn eða lóðirnar hér á höfuðborgarsvæðinu er það bara þannig að hann lofaði að lækka skatta og hann kemur hér á sitt fyrsta þing með frv. um það að hækka skatta um rúma fjóra milljarða, einkum skatta á ungt fólk, sína eigin kynslóð, á barnafjölskyldurnar sem eru skuldsettar vegna húsnæðiskaupa og þurfa að vinna sér inn mikið fé til þess að reka heimili, og lenda í hinum sérstaka tekjuskatti. Hann ætlar sérstaklega að endurnýja þann skatt með 4% álögum og hann ætlar sérstaklega að beita sér fyrir því að 600 millj. verði skornar niður í vaxtabætur.

Þetta eru efndirnar og það þýðir ekkert að koma hér á þessum fundi og segja að ,,við ætlum að gera eitthvað árið 2007``. Forsætisráðherra, hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, hæstv. forsrh. lofaði því að það yrði lögfest á þessu þingi. Orð skulu standa.