Fjárlög 2004

Föstudaginn 03. október 2003, kl. 14:18:58 (74)

2003-10-03 14:18:58# 130. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., GÞÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 130. lþ.

[14:18]

Guðlaugur Þór Þórðarson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Helgi Hjörvar verður að virða mér til vorkunnar þótt ég muni aðeins meira en gengur og gerist akkúrat núna hér á þessari stundu. Ég skil vel að hv. þingmanni finnist það hið ómögulegasta mál að ég vitni í orð og efndir og hvað er að gerast hér almennt í þjóðfélaginu.

Ég held að þingmenn verði að átta sig á því að þegar hv. þm. Helgi Hjörvar talar um að hér sé um óskhyggju að ræða er viðkomandi að tala út frá ákveðnum reynsluheimi þar sem hann er vanur því að vera í framboði fyrir stjórnmálaafl sem stendur ekki við það sem það segir. Þegar hér liggur svo fyrir stjórnarsáttmáli, áætlun um skattalækkanir um ekki minna en 20 þús. millj., 20 milljarða --- við höfum aldrei séð neitt slíkt áður, aldrei nokkurn tíma (ÁRJ: Er þá ekki ...?) --- metur hv. þm. það þannig að það eigi ekki að standa við hann.

Hv. þm. er ekki vanur því frá reynsluheimi sínum, eins og hann fór yfir hér í byrjun, sem eru sveitarstjórnarmálin að menn standi við orð sín. En það liggur alveg fyrir að það verður gert, án nokkurs vafa. Menn geta hártogað það nákvæmlega eins og þeir vilja en allt það sem við sögðum í skattamálum mun standa. Og hér liggur fyrir áætlun um mestu skattalækkanir í Íslandssögunni, hvorki meira né minna. Og það verður að segjast eins og er að það er afskaplega gaman að vera í meiri hluta og geta tekið þátt í slíku. En þar sem ég þekki hvaðan hv. alþingismaður Helgi Hjörvar kemur skil ég vel að hann meti það sem svo að það verði ekki staðið við slíkt.

Svo fagna ég því, og það er ekki oft sem það kemur frá þessum hópi manna sem er vinstra megin í stjórnmálum, að viðkomandi sé sammála því að það sé fagnaðarefni að við vinnum loks bug á þessum illræmda skatti sem hátekjuskatturinn er. En eins og þingmaðurinn veit verður hann aflagður með öllu árið 2006.

(Forseti (GÁS): Forseti vill minna á að andsvaratími er tvær mínútur, og tvær mínútur eingöngu.)