Fjárlög 2004

Föstudaginn 03. október 2003, kl. 14:23:16 (76)

2003-10-03 14:23:16# 130. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 130. lþ.

[14:23]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það hljóti að gæta töluverðs misskilnings hjá hv. þingmanni gagnvart persónuafslætti og að það sé einhver gullvæg meginregla að hann eigi að fylgja launavísitölu. Því hefur aldrei, herra forseti, nokkurn tíma verið haldið fram að hann ætti að fylgja launavísitölu. Það hefur aldrei nokkur einasti einstaklingur eða nokkur einasti flokkur, að ég held, haldið því fram. Ég held m.a.s. að hans eigin flokkur, Samfylkingin, hafi aldrei nokkurn tíma lagt það til, ekki svo ég muni. Það er nefnilega alveg stórhættulegt ef við ætlum að fara að binda þetta við launavísitölu. Menn eru kannski svo fastir í farinu að þeir halda að við séum inni í einhverju kerfi þar sem eilíflega verður aukinn kaupmáttur.

Hugsum nú dæmið ef t.d. kaupmátturinn mundi rýrna, eins og oft hefur nú gerst á umliðnum áratugum á Íslandi, þetta hefur gengið upp og niður. Hvað ætlum við að gera þá? Hvað ætlum við að gera þegar neysluvísitalan fer upp fyrir launavísitöluna? Það sér hver í hendi sér. Ætlum við að auka skattana á fólk þegar kjörin rýrna? Það er eðlilegt, herra forseti, að við höfum þetta eins og við gerum þetta.

Þegar tekjur samfélagsins aukast, þegar heildartekjurnar eru að aukast, batna kjör einstaklinganna. Þá batna líka kjör ríkisins. Það er líka alveg bráðnauðsynlegt. Þegar kjörin fara hins vegar niður, þegar tekjur samfélagsins minnka, rýrna kjör einstaklinganna en þá rýrna líka kjör ríkisins og þá á ríkið einmitt að taka á sig sem mest af þessum skelli til þess að verja einstaklingana. Þannig er þetta kerfi byggt upp, þannig er það hugsað, og ég trúi ekki öðru en að hv. þingmaður átti sig á að þetta er svona. Ég held að allir hljóti að vera sammála um að auðvitað ætlum við að hafa þetta svona áfram.