Fjárlög 2004

Föstudaginn 03. október 2003, kl. 14:29:22 (81)

2003-10-03 14:29:22# 130. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., KHG
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 130. lþ.

[14:29]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Stóru drættirnir í þessu fjárlagafrumvarpi bera vott um ákaflega trausta efnahagsstjórn á umliðnum árum og góðar líkur á að svo verði áfram á þessu kjörtímabili. Það liggur fyrir að kaupmáttur hefur vaxið samfellt í mörg ár, lengur en nokkru sinni áður í sögu íslenska lýðveldisins, og enn eitt ár mun bætast við þar sem kaupmáttur mun almennt aukast. Það liggur fyrir að atvinnuleysi á næsta ári er áætlað vera aðeins um 2%, sem er ákaflega lítið, sem ber vott um að atvinnustefna ríkisstjórnarinnar stendur mjög styrkum fótum og hefur stuðlað að því að atvinnustig er mjög hátt og hefur sjaldan verið hærra. Það ber vott um að skuldir ríkisins hafa minnkað á undanförnum árum og munu líklega halda áfram að minnka á næsta ári.

Ef við skoðum alla þessa efnahagslegu þætti, verðbólgu, atvinnustig, kaupmátt og skuldir, bera þeir allir vott um að efnahagur stendur ákaflega traustum fótum hér á Íslandi og líklegt er að svo verði áfram á þessu kjörtímabili. Helsta aðsteðjandi vandamál á kjörtímabilinu er ekki fólgið í atvinnuleysi eða lækkun kaupmáttar, heldur hinu að menn óttast að um ofþenslu geti orðið að ræða. Því þurfi þeir sem fara með ríkisfjármálin að huga að aðgerðum til þess að koma í veg fyrir, eftir föngum, að verðbólga fari á kreik vegna þenslunnar. Það eru vandamál sem eru ólík þeim sem oft hafa verið á umliðnum áratugum.

Við sjáum líka að tekjur ríkissjóðs standa vel undir þeim útgjöldum sem menn hafa ákveðið á hverju ári, jafnvel þótt að á undanförnum árum, m.a. á síðasta kjörtímabili, hafi skattar verið lækkaðir um fjögur prósentustig hvað tekjuskattinn varðar. Það er mesta skattalækkun sem ég man eftir að hafi orðið í íslenskri pólitík frá því ég fór að fylgjast með þeim. Þrátt fyrir þessa skattalækkun er staða ríkissjóðs ákaflega traust í þessum efnum.

Það er athyglisvert að helsta gagnrýnisefni Samfylkingarinnar er að ríkisstjórnin skuli ekki fara hraðar í enn meiri skattalækkanir ofan á þær miklu skattalækkanir sem verið hafa á undanförnum árum. Það sýnir að vissu leyti að stjórnarandstaðan á í erfiðleikum með að fóta sig í gagnrýni á ríkisstjórnina við þessar aðstæður í íslensku efnahagslífi.

Við sjáum líka dæmi um aukin útgjöld til viðkvæmra málaflokka í fjárlagafrumvarpinu sem hægt er að ráðast í vegna þess að ríkissjóður hefur meiri tekjur af sköttum. Það er vegna þess að þeir sem borga skattana hafa sjálfir meiri tekjur sem hægt er að taka af til ríkissjóðs en hafa eftir sem áður meiri tekjur fyrir sig, eins og tölurnar sína.

Við sjáum í þessu frumvarpi að áætlað er að framlög til lífeyristrygginga muni aukast um þrjá milljarða kr. Um einn milljarð kr. til þess að hækka grunnlífeyri örorkulífeyrisþega. Með þeim hætti eins og síðar mun sjást í frumvarpi að þeir sem urðu öryrkjar ungir munu fá meiri hækkun en þeir sem urðu öryrkjar seinna á æviskeiðinu. Mesta hækkun á grunnlífeyri getur orðið tvöföldun hafi menn orðið öryrkjar mjög ungir. Þetta er mikið réttindamál sem ríkisstjórnin náði samkomulagi um við samtök öryrkja fyrir síðustu kosningar og er að hrinda í framkvæmd. Það er ekki hægt að bera öðru við í þessu máli en að orð standi.

Í öðru lagi er verið að auka lífeyrisgreiðslur til ellilífeyrisþega í samræmi við samkomulag sem um þær voru gerðar fyrir síðustu kosningar. Þær greiðslur aukast um 1.100 millj. kr. á næsta ári eins og sjá má í fjárlagafrumvarpinu.

Í þriðja lagi vil ég nefna barnabætur sem hafa aukist mjög mikið á undanförnum tveimur árum vegna ákvörðunar um að hækka þær verulega og ég hygg að fjárhæðin muni aukast um þrjá milljarða frá því sem var þegar ákvörðunin var tekin.

Allt eru þetta dæmi um dreifingu tekna ríkissjóðs til málaflokka sem ég held að menn geti ekki deilt um að er skynsamleg, eðlileg og sjálfsögð.

Það eru ákveðnir hlutir sem ég tel rétt að gera að umtalsefni í þessari ræðu og vekja athygli á og setja fram sjónarmið mín um þau.

Ég vil í fyrsta lagi segja að ég er þeirrar skoðunar að menn eigi að skattleggja eftir efnum. Þeir sem hafa háar tekjur eiga að borga hærri skatta en þeir sem hafa lægri tekjur. Ég er því eindregið á þeirri skoðun að hátekjuskattur eigi að vera áfram. Ég er út af fyrir sig sammála þeirri niðurstöðu ríkisstjórnarinnar að framlengja núverandi sérstakan tekjuskatt. En ég tel óskynsamlegt að lækka hann frekar frá því sem nú þegar hefur verið gert.

Ég vil minna á að hátekjuskattur skilar aðeins um 2% af tekjum af tekjuskatti. Þannig að hátekjuskatturinn er ákaflega rýr í roðinu og ræfilslegur sem hátekjuskattur. Ég tel nær að fara í hina áttina að breyta innheimtu ríkissjóðs af tekjuskatti þannig að stærri hluti tekjuskattsins sé tekinn með hátekjuskatti og minni hluti með almennum skatti.

Ég nefni líka að sérstakur tekjuskattur er í dag 5%. Var á síðasta ári 7%. Hann hefur lækkað um 2%. Ég nefni líka að tekjumörkin til sérstaks tekjuskatts hafa hækkað á tveimur árum um nærri 22%, eða langt umfram verðlag og langt umfram launabreytingar. Hvort tveggja hefur leitt til þess að þeir sem hafa háar tekjur hafa fengið skattalækkun hvað sérstaka tekjuskattinn varðar.

Miðað við forsendur frumvarpsins er áætlað að sérstaki tekjuskatturinn skili um 1.400 millj. kr. á næsta ári. Ef menn hefðu haft tekjuskattinn áfram 7% en stefndu ekki að því að hafa hann 4% eins og frumvarpið gerir ráð fyrir mundi þessi tekjuskattur skila einum milljarði meira í ríkissjóð en hann gerir samkvæmt frumvarpinu.

Þá á eftir að meta lækkunina til tekjuhárra sem leiðir af því að tekjumörkin hafa hækkað svona mikið. Þannig að þessi hópur, hátekjuhópur, hefur fengið verulega ívilnun með breytingum síðustu tveggja ára.

Ef dreifingin á sérstökum tekjuskatti er skoðuð kemur í ljós samkvæmt upplýsingum frá fjmrn. að það eru aðeins 6--7% framteljenda sem greiða sérstakan tekjuskatt. Það er ákaflega lítill hluti skattgreiðenda. Þeir eru langflestir í efstu tíund teknanna, þ.e. þá sem greiða sérstakan tekjuskatt er að finna í hópi þeirra 10% framteljenda sem hæstar tekjur hafa. Það er ákaflega eðlilegt að þeir sem eru í hópi þeirra sem mestar tekjur hafa borgi meiri skatta en hinir. Ég tel það ekki eðlilegt að það eigi að lækka sérstaklega skatta á þessum hópi umfram aðra hópa.

Því lýsi ég sjónarmiðum mínum í þeim efnum mjög skýrt. Ég lít svo á að við eigum að skattleggja tekjuháa umfram aðra til þess að stuðla að sátt um skattkerfið.

Ég minni á nýlega ræðu hægri mannsins Kåre Willochs í Noregi sem hann flutti um síðustu helgi. Þar vék hann einmitt að þessu atriði og fjármagnstekjuskatti sem hér er aðeins 10%. Ég vil ítreka þá skoðun mína sem ég hef alla tíð haft á því máli að ég tel að það eigi að vera sami skattur á vinnulaun, á tekjur af vinnu og tekjur af fjármagni. Það er mjög merkilegt að lesa það í norsku fjölmiðlunum að hægri maðurinn Kåre Willoch er orðinn sammála þessum sjónarmiðum. Ég tel tímabært að við tökum það til umræðu hér í þingsölum á Íslandi.