Fjárlög 2004

Föstudaginn 03. október 2003, kl. 14:39:39 (82)

2003-10-03 14:39:39# 130. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 130. lþ.

[14:39]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég tek undir með þeim sem hafa rætt um skatta, nú síðast hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, að það er mikilvægt að ráðist verði í breytingar á skattkerfinu. Ég trúi því reyndar að við séum komin þar inn í öngstræti og þörf sé á róttækri uppstokkun á skattkerfinu almennt. Umræðan hefur þó ekki fyrst og fremst snúist um það í dag, heldur um hið almenna skattstig. Ég er ekki í hópi þeirra sem skamma ríkisstjórnina fyrir að standa ekki við hótanir sínar um að skerða þegar í stað tekjur ríkis og sveitarfélaga. Því var hótað hér í vor. Ríkisstjórnin eða stjórnarflokkarnir kölluðu það reyndar loforð um skattalækkanir. Ég leit hins vegar á þetta á gagnstæðan hátt sem hótun um að skerða tekjur ríkis og sveitarfélaga.

Herra forseti. Ég ætla að byrja á því að nefna það sem ég tel vera jákvætt í þessu frumvarpi. Þar vil ég fyrst nefna hækkun á greiðslum til öryrkja, þ.e. þeirra sem verða öryrkjar á unga aldri. Þar tel ég vera stigið mjög mikilvægt framfaraspor. Þessi ákvörðun byggir á samkomulagi sem heilbrrn. gerði við Öryrkjabandalagið sl. vor og þótt deila megi um tímasetningar, að gera þetta rétt fyrir kosningar, þá er hitt ofar í mínum huga að hér er vísað á jákvæðan hátt inn í framtíðina. Framtíðin er sú að þeir sem á annað borð stíga út á vinnumarkað fái sínar tekjur í gegnum lífeyrissjóði, nokkuð sem hinir, sem verða öryrkjar á unga aldri, eiga ekki kost á.

Annað sem ég vil nefna ríkisstjórninni til hróss er það sem snýr að lífeyrismálum. Þar vísa ég ekki síst til stærsta lífeyrissjóðs landsins, LSR. Sem kunnugt er þá er hann tvískiptur. Nýrri hluti sjóðsins er sjálfbær sem kallað er. Iðgjöldin og ávöxtun sjóðsins rís undir þeim skuldbindingum sem hann er ábyrgur fyrir. Gamli hlutinn er það hins vegar ekki. Hann er rýr. Ástæðuna þekkjum við. Hann var notaður sem fjármagnsbrunnur um áratugi. Þaðan voru teknir milljarðar á milljarða ofan, vaxtalausir, og vissulega notaðir til uppbyggilegra verkefna í samfélaginu en afleiðingin varð engu að síður sú að hann er fjárvana. Á undanförnum árum hefur verið veitt umtalsvert fé til þess að tryggja að í framtíðinni verði vandinn ekki óyfirstíganlegur. Þetta finnst mér jákvætt.

Hvað varðar aðra þætti í lífeyrismálum, sérstaklega viðbótarframlag í séreignarsparnað og afnám þess upp á hálfan milljarð króna, hef ég grun um að við eigum eftir að ræða það nokkuð áður en upp er staðið.

Þriðja sem ég vil nefna jákvætt í þessu frumvarpi er að það vísar inn í framtíðina að því leyti að ríkisstjórnin gerir grein fyrir hverju hún vill koma í framkvæmd, hver hennar pólitísku og efnahagslegu markmið eru fram til loka þessa kjörtímabils árið 2007. Þetta vildi ég segja í upphafi.

[14:45]

En í upphafi ræðu sinnar barði hæstv. fjmrh. sér á brjóst og vísaði í álitsgjafa sem gæfu honum háar einkunnir fyrir frammistöðu á undanförnum árum. Hverjir voru þeir álitsgjafar sem hæstv. ráðherra Geir H. Haarde vísaði í? Voru það verkalýðssamtökin? Nei. Voru það þeir hópar sem eiga allt sitt undir þessum fjárlögum komið? Voru það öryrkjarnir? Voru það atvinnulausir? Það var ekki vísað í þá, enda held ég að þeir hefðu ekki gefið þessu fjárlagafrv. háa einkunn.

Eða hvað segir hinn atvinnulausi maður sem nú stendur frammi fyrir því að fyrstu þrír dagar í atvinnuleysi skuli undanþegnir bótum? Gera menn sér grein fyrir því hvaða kjör atvinnulaust fólk býr við í okkar landi? Atvinnuleysisbætur á mánuði eru 77.499 kr. Útborgað er ekki nema 72.500 þegar skattar og lífeyrisgjöld hafa verið dregin frá. Hvað á að taka af þessu fólki? Við skulum reikna það út.

Samkvæmt kjarasamningum telst mánuðurinn 21,67 vinnudagar. Þrír dagar reiknast þannig 10.722 kr., sem ríkisstjórnin ætlar að stela af atvinnulausu fólki. Þetta eru fyrstu skilaboðin sem þessi ríkisstjórn sendir út í þjóðfélagið. Og þetta voru ekki þeir álitsgjafar sem hæstv. fjmrh. vísaði til. Nei, það var Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, að sjálfsögðu, sá aðili heimsbyggðarinnar sem harðast hefur gengið fram í að knýja fram markaðs- og einkavæðingu í heiminum og gildir þá einu hvort um er að ræða ríkar þjóðir eða snauðar. Þetta er álitsgjafi hæstv. ráðherra Geirs H. Haardes þegar hann ber sér á brjóst og gortar af fjárlagafrv.

Í ræðu sinni sagði hæstv. ráðherra að ekki stæði til að skerða samneysluna. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson lagði einnig áherslu á þetta. Þeir bentu á að henni yrði haldið í skefjum, hún yrði ekki látin vaxa umfram 2% að raungildi. Þetta er hægt að skoða einnig í öðru samhengi með tilvísan til umfangs í efnahagsstarfseminni, hagvaxtarins, og skoða jafnvægið þar á milli. En þegar það er gaumgæft þá kemur í ljós að samneyslan mun vega minna sem hlutfall af vergri landsframleiðslu í lok kjörtímabilsins en hún gerir nú, enda er þannig lagt upp í för að það á að framfylgja þeirri hótun að skerða tekjur ríkis og sveitarfélaga. Sú er hótunin og að sjálfsögðu mun það bitna á samneyslunni.

Þetta má skoða einnig á annan hátt. Við skulum reyna að hverfa út úr meðaltölunum og horfa til einstakra efnisþátta, vegna þess að samneyslan spannar allt þjóðlífið. Þar undir eru vegirnir, sendiráðin, utanríkisþjónustan, velferðarþjónustan, skólarnir og sjúkrahúsin. Hvar á að skera?

Þar staðnæmumst við fyrst við sjúkratryggingar. Þar er 740 milljóna niðurskurður og hann er ávísun á hærra lyfjaverð, minni stuðning til þeirra sem leita til sérfræðinga, til þeirra sem eru sjúkir og þurfa á hjálpartækjum að halda. Þarna er skorið niður.

Við getum haldið áfram og lítið víðar yfir sviðið. En, herra forseti, --- eða á ég að segja virðulegi forseti, af því að nú er kona komin í þá stöðu --- tími minn er á þrotum. En ég ætla að víkja að þessu nánar og ég ætla að víkja þá nánar að manninum með kanínurnar sem hæstv. heilbrrh. vísaði í í gær, en ég heyrði ekki betur en hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson ætlaði að taka það hlutverk að sér í heilbrigðiskerfinu. Nánar um það síðar.