Fjárlög 2004

Föstudaginn 03. október 2003, kl. 15:01:01 (90)

2003-10-03 15:01:01# 130. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 130. lþ.

[15:01]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er alveg sammála því að samneyslunni eru ákveðin takmörk sett vegna þess að skattlagningu eru ákveðin takmörk sett. Ég er líka fylgjandi því að við sýnum ýtrustu ráðdeild með opinbera fjármuni. Hin pólitíska spurning er hvernig þetta verði best gert, hvernig þetta verði tryggt. Um það deilum við, ég og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson. Hann telur hugsjón sína um markaðsvæðingu og einkavæðingu leiða til þess að fjármunirnir nýtist betur og gagnist betur þeim sem þjónustunnar eiga að njóta. Ég er á öndverðum meiði. Ég hef hvatt til þess að við lítum þar til reynslunnar, reynslu þeirra þjóða sem hafa einkavætt og markaðsvætt grunnþjónustu samfélagsins, þar á meðal heilbrigðisþjónustuna.

Það er alveg rétt sem hæstv. heilbrrh. sagði í blaðaviðtali ekki alls fyrir löngu, að kerfisbreytingar leiða ekki til þess að vandinn hverfi. Áfram þarf að fjármagna þau verkefni sem við erum ásátt um að inna af hendi. Þá þarf að gæta að því hvaða leið, hvaða skipulag, leiðir til þess að við förum best með fjármuni, nýtum þá á hagkvæmastan hátt. Að því leyti hef ég varað við stefnu Sjálfstæðisflokksins um einkavæðingu og markaðsvæðingu í grunnþjónustunni.