Fjárlög 2004

Föstudaginn 03. október 2003, kl. 15:03:11 (91)

2003-10-03 15:03:11# 130. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., DrH
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 130. lþ.

[15:03]

Drífa Hjartardóttir:

Virðulegi forseti. Tími hagvaxtar er fram undan en jafnframt eru gerðar auknar kröfur um ábyrga hagstjórn við þær aðstæður sem nú eru upp komnar vegna áhrifa stóriðjuframkvæmda. Því skiptir miklu máli að við stjórn peningamála og ríkisfjármála sé tekið mið af þessu og að þeim stöðugleika í efnahagsmálum sem náðst hefur verði ekki raskað. Fyrir liggur að þessar umsvifamiklu framkvæmdir munu reyna á þanþol hagkerfisins, sérstaklega á árunum 2005 og 2006.

Í haustferð fjárlaganefndar um virkjanasvæðið við Kárahnjúka, þar sem mestu framkvæmdir Íslandssögunnar standa nú yfir, og í heimsóknum til sveitarstjórna á Austurlandi sáust þess glöggt merki að nú ríkir bjartsýni og kraftur fyrir austan. Þar er sannarlega verk að vinna. Og nú á sér stað mikil uppbygging í sveitarfélögum þar sem nánast var stöðnun áður.

Það markar tímamót í vinnubrögðum við hagstjórn landsins að fjárlagafrumvarpinu fylgir stefnumörkun ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum til ársins 2007. Hún styrkir trúverðugleika efnahagsstefnunnar, gefur meiri yfirsýn yfir stöðu og horfur í efnahagsmálum og stuðlar að áframhaldandi stöðugleika.

Ríkisstjórnin leggur megináherslu á að skattar verði lækkaðir á kjörtímabilinu. Skattalækkanir munu auka hagvöxt og tryggja að ávinningur góðrar hagstjórnar falli almenningi í skaut. Í þjóðhagsáætlun sem hæstv. forsrh. Davíð Oddsson lagði fram og í ræðu hæstv. fjmrh. Geirs Haardes kemur fram að gert er ráð fyrir að um 20 milljörðum kr. verði á kjörtímabilinu varið til skattalækkana. Mikilvægt skref í skattalækkun verður tekið um áramót þegar hátekjuskatturinn verður lækkaður í 4%. Hann verður síðan lækkaður í 2% árið 2005 og felldur niður árið 2006. Tekjuskattur verður lækkaður á kjörtímabilinu um allt að 4% og eignarskattur afnuminn.

Ákveðið hefur verið að huga að breytingum á álagningu virðisaukaskatts á næstu fjórum árum. Mjög mikilvægt er að það verði gert og þar með staðið við áherslur Sjálfstæðisflokksins í skattamálum.

Lífskjör íslensku þjóðarinnar hafa á undanförnum árum batnað svo um munar. Þar er enginn þjóðfélagshópur undanskilinn en sem betur fer hafa þeir sem lægst hafa launin notið hlutfallslega mestrar kaupmáttaraukningar. Til að styrkja hag heimilanna enn frekar mun ríkisstjórnin leggja áherslu á að lækka skatta, t.d. virðisaukaskatt á matvæli. Sú aðgerð kemur öllum launþegum til góða.

Hagstjórn undanfarinna ára hefur leitt til þess að kaupmáttur hefur vaxið meira en dæmi eru um síðustu áratugi. Forsenda stöðugleika er hóflegar launahækkanir og lítil verðbólga. Stöðugleikinn er grundvöllur þess að kaupmáttur vaxi enn frekar.

Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að kaupmáttaraukning verði 2,5% á árinu 2004. Þegar þróun kaupmáttar hér á landi er borin saman við þróunina í löndum OECD kemur í ljós, sem er mjög athyglisvert, að kaupmáttur launa á almennum markaði jókst um 33% frá árinu 1994 til 2003 á Íslandi en um 13% að meðaltali í öðrum löndum OECD á sama tímabili.

Á árunum 2001--2003 voru barnabætur til fjölskyldna hækkaðar um 500 milljónir á ári, eða samtals um 1.500 millj. á tímabilinu. Stuðningur við barnafjölskyldur verður aukinn verulega á árunum 2005--2007. Stuðningurinn felst m.a. í hækkun barnabóta og frítekjumarks auk þess sem enn frekar verður dregið úr tekjutengingum. Til athugunar er að auka þessar greiðslur á komandi árum með hækkun bótanna og frítekjumarks og með því að draga úr skerðingum vegna tekna. Þar sem eftir á að ljúka nánari útfærslu þessa er gert ráð fyrir óbreyttri fjárheimild til barnabóta í frumvarpinu.

Framlög til nokkurra forgangsmála verða hækkuð umtalsvert milli ára þrátt fyrir aukið aðhald í ríkisfjármálum. Má þar nefna framlög til lífeyristrygginga sem munu aukast verulega, þ.e. um 17% vegna samnings við eldri borgara.

Þá hækka framlög til örorkubóta sérstaklega og framlög til heilbrigðismála verða aukin. Einkum verða þau aukin vegna fjölgunar hjúkrunarrýma og dagvistunarrýma, úrræða í geðheilbrigðismálum og til að stytta biðlista eftir sambýlum fyrir fatlaða. Framlög verða einnig aukin til reksturs sjúkrastofnana og hjúkrunarheimila.

Virðulegi forseti. Framlög til menntamála aukast talsvert, einkum til háskóla og Lánasjóðs íslenskra námsmanna. En framlög til háskóla, rannsókna og framhaldsskóla jukust um 49% frá árinu 2000 til 2004.

Í nýútkominni skýrslu OECD um menntamál kemur fram að Ísland er í hópi með Kanada, Danmörku og Svíþjóð. Þessi lönd verja meira en 6,2% af landsframleiðslu sinni til menntastofnana. Aðeins Bandaríkin og Kórea leggja hlutfallslega meira fé til skóla, þ.e. um 7%. Í skýrslu OECD kemur einnig fram að Íslendingar, ásamt Nýsjálendingum og Svíum, leggja þjóða mest fram í námslán.

Það hefur orðið bylting í framboði menntunar á háskólastigi og eru skólar á háskólastigi núna níu. Ísland er meðal fimm landa þar sem fjöldi stúdenta í háskólanámi hefur þrefaldast á sl. 25 árum. Fjöldi kvenna í háskólanámi hefur sexfaldast á þessu tímabili. Símenntunarstöðvar á landsbyggðinni eru núna níu talsins og það hefur gert allt nám auðveldara. Það hefur styrkt byggðina í landinu og hefur nemum í fjarnámi fjölgað ár frá ári. Það sýnir áhuga og þörf landsmanna til að sækja sér menntun. Þar eru tækifæri fyrir þá sem geta ekki vegna fjarlægðar eða atvinnu sótt menntun nema fyrir tilstuðlan fjarkennslu.