Fjárlög 2004

Föstudaginn 03. október 2003, kl. 15:10:24 (92)

2003-10-03 15:10:24# 130. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., JGunn
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 130. lþ.

[15:10]

Jón Gunnarsson:

Virðulegi forseti. Hæstv. fjmrh. hefur lagt fram fjárlagafrumvarp næsta árs og óhætt er að segja að það er merkilegt fyrir margra hluta sakir. Þetta frv. ber ákveðin og bein skilaboð til allra þeirra er málið varðar um hvernig ríkisstjórnin hyggst efna þau kosningaloforð sem gefin voru í nýafstaðinni kosningabaráttu. Það er vísbending um þær málefnaáherslur sem verða ofan á í rekstri ríkisins á komandi árum og mánuðum.

Eins og við flest munum þá lofuðu ríkisstjórnarflokkarnir ótæpilega fyrir síðustu kosningar og þeim mun meira sem nær dró kosningum. Ekki er langt síðan þetta var og ekki hefur neitt nýtt komið fram sem ekki var vitað þegar loforðin voru gefin. Því er ákaflega fróðlegt að skoða í frumvarpinu fyrir árið 2004 hverjar efndirnar eru.

Ég minni að gefnu tilefni á það sem komið hefur fram fyrr í dag að við erum að fjalla um fjárlagafrumvarp fyrir næsta ár og megum ekki láta áætlanir næstu ára á eftir trufla þá umræðu um of.

Í raun finnst mér eins og þeir sem hér hafa talað af hálfu ríkisstjórnarflokkanna vilji láta þessa umræðu snúast að miklu leyti um árin 2005, 2006 og 2007. En hér erum við að taka fyrir frv. til fjárlaga fyrir árið 2004. Ég held því að rétt sé að halda sig við það.

Með því að fara í umræður um árin 2005, 2006 og 2007 er í raun verið að segja: Við efnum ekki kosningaloforð okkar núna en við gerum það næst. Það er mjög þægileg leið, að vísa kosningaloforðunum fram í tímann og segja einmitt þetta.

Fyrir kosningarnar var lofað miklum skattalækkunum fyrir alla launamenn. Við munum flest loforð um að þessar lækkanir mundu verða tilkynntar og lögfestar í upphafi þings þannig að allir vissu að hverju þeir gengju í því efni til loka kjörtímabils. Hver eru síðan skilaboðin í fyrirliggjandi frumvarpi? Hverjar eru efndirnar? Engar almennar skattalækkanir á næsta ári. Loforð um skattalækkun er framlengt eins og víxill sem ekki er hægt að standa við að greiða. Það eru engar ákveðnar dagsetningar. Það eru engar ákveðnar upphæðir fyrir hvert ár kjörtímabilsins.

Þó að ekki séu boðaðar almennar skattalækkanir í frv. til fjárlaga næsta árs eru þó ákveðin skilaboð í því fólgin að lækka hátekjuskatt um 1% og láta þar við sitja. Þau skilaboð hljóta að vera að þarna brenni mest á að lækka skatta. Þar með eru skattalækkanir næsta árs upptaldar.

En í frv. er einnig lagt til að fara í viðbótartekjuöflun. Hver eru skilaboð ríkisstjórnarinnar í þeim efnum? Yfir það hefur verið farið hér í dag og því ekki mælt í mót að þetta séu megintekjuöflunartillögur ríkisstjórnarinnar. Afla skal 1 milljarðs kr. í viðbótartekjur með álögum á bensín og dísilolíu. Þessi hækkun mun að sjálfsögðu skila sér beint út í verðlagið, hafa áhrif á rekstrarkostnað heimilanna og vísitölu neysluverðs.

[15:15]

Eins og svo oft áður mun þessi tekjuöflun ríkissjóðs koma harðast niður á þeim sem minnst hafa en muna minna um hana hjá þeim sem tekjuhærri eru.

Í frv. eru einnig boðaðar aðhaldsaðgerðir og flestir eru sammála um að nauðsynlegt sé að beita aðhaldi í útgjöldum ríkisins. Hvar á að spara miðað við frv. hæstv. fjmrh. og hver eru skilaboðin sem lesa má út úr frv.?

Það hefur komið fram hér í dag að útgjöld til sjúkratrygginga eiga að lækka um 740 millj. kr., þ.e. lyfjakostnaður, hjálpartæki og sérfræðilæknar. Hvernig á að gera þetta samkvæmt frv.? Jú, eins og fram hefur komið á að auka hlut sjúklinga í lyfjakostnaði. Það á að auka greiðslur sjúklinga til sérfræðinga og ríkið minnkar greiðsluþátttöku sína í hjálpartækjum. Vaxtabætur til þeirra sem notið hafa skulu lækka um 600 millj. kr.

Þegar við minnumst kosningaloforða um hækkun húsnæðislána og að lánshlutfall skuli fara upp í 90% af verði íbúðar, þá hlýtur þessi aðgerð að stinga í augun og kalla á einhverjar útskýringar.

Lækka skal útgjöldin um 500 millj. kr. með því að hætta að greiða álag frá ríkinu á viðbótarlífeyrissparnað launþega. Vissulega þarf einhvern tímann að afnema tímabundnar heimildir ríkisins til að leggja á tekjur eða auka útgjöld vegna sérstakra markmiða eða aðstæðna í þjóðfélaginu. En er það ekki tímaskekkja að gera það nú þegar frekari þörf er á að auka sparnað eins og hægt er til að sporna við einkaneyslu og frekari þenslu í hagkerfinu? Væri ekki betra að afnema þetta þegar hvetja þyrfti til frekari einkaneyslu en ekki þegar hvetja þyrfti til sparnaðar?

Hinar ýmsu stjórnsýslustofnanir eiga að spara 100 millj. kr. með flötum niðurskurði. Um þetta er lítið að segja, það er í raun alveg nóg að vísa til síendurtekinna tilrauna til að skera flatt niður. Ekki er reynsla af flötum niðurskurði með þeim hætti að til eftirbreytni sé.

Síðast en ekki síst á að spara atvinnuleysisbótagreiðslur með því að hætta að greiða bætur fyrstu þrjá daga atvinnuleysis. Umræður hér fyrr á þingfundinum um þetta mál voru á þann veg að þetta væri kannski ekki mikið mál, þetta væru bara þrír dagar, væri ekki stór upphæð og að í nágrannalöndum okkar væri þetta tíðkað svona alls staðar nema í Danmörku, að biðtími væri á greiðslu atvinnuleysisbóta. Ég minni þá á að þar eru atvinnuleysisbætur að sjálfsögðu miklum mun hærri en hér. Því munar um þetta hér þar sem atvinnuleysisbætur eru þetta lágar.

Virðulegi forseti. Ljóst hefur verið af máli sveitarstjórnarmanna sem heimsótt hafa fjárln. undanfarna daga að full nauðsyn er á því að skoða tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Sveitarfélög ná ekki að reka lögbundna þjónustu með þeim tekjum sem þau hafa í dag. Þau hafa í raun verið að bjarga sér tímabundið með stórfelldri sölu eigna. Það verður ekki vikist undan því að semja við sveitarfélögin og það getur að einhverju leyti raskað tekjuforsendum þessa frv. Það er því nauðsyn að leiða viðræður við sveitarfélögin til lykta hið fyrsta þannig að niðurstaða viðræðna verði lögð til grundvallar í fjárlögum nýs árs.

Sveitarstjórnarmenn hafa líka lagt á það ríka áherslu að full þörf sé á því að mæta aukinni þörf fyrir hjúkrunarrými aldraðra og ber að fagna því að í fyrirliggjandi frv. er gert ráð fyrir að fjölga hjúkrunarrýmum um 150 árin 2004 og 2005 reyndar. En hækkunin á þessu framlagi nemur 400 millj. kr. á næsta ári. Mikið er um það að sveitarfélögin visti sjúka aldraða á dvalarheimilum og nauðsynlegt er að fram fari mat á því hið fyrsta hve margir hjúkrunarsjúklingar dvelji nú á slíkum heimilum og að sveitarfélögunum verði tryggðir fjármunir til þess að breyta hluta dvalarheimila í hjúkrunarheimili.

Virðulegi forseti. Það eru hin almennu skilaboð í frv. sem vekja mann til umhugsunar um hvert verið sé að stefna og hvernig gangi að jafna byrðar í samfélaginu. Í fljótu bragði verður ekki séð að frv. til fjárlaga sem nú hefur verið lagt fram sé mjög jákvætt spor í þá átt. Fjárlagafrumvarpið tekur þó alltaf breytingum í meðförum þingsins og búast má við að það muni einnig gerast með þetta frv. Nauðsynlegt er að í endanlegri mynd sé gert ráð fyrir fyrirsjáanlegum útgjöldum og áætla eins nákvæmlega og hægt er. Við megum ekki viljandi vanáætla einhverja liði með það í huga að taka það upp í fjáraukalögum síðar.

Fjárln. mun nú taka til við yfirferð á fyrirliggjandi frv. og segja mér eldri þingmenn að nú hefjist mikil vinna hjá okkur fjárlaganefndarmönnum. Þeirri vinnu kvíði ég ekki og vona að samstarfið við aðra nefndarmenn verði bæði gott og árangursríkt. Það er alveg ljóst að nauðsynlegt er að ná fram breytingum á frv. til fjárlaga og vonandi tekst það í störfum fjárln.