Fjárlög 2004

Föstudaginn 03. október 2003, kl. 15:34:34 (96)

2003-10-03 15:34:34# 130. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 130. lþ.

[15:34]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Virðulegi forseti. Í öllum aðalatriðum er ég sammála hæstv. heilbrrh. Jóni Kristjánssyni, en vek athygli á því að hjá Sjálfstfl. hefur orðið ákveðin stefnubreyting varðandi einkavæðingu í heilbrigðisþjónustunni. Fyrir fáeinum árum fylgdi flokkurinn þeirri stefnu að notandinn ætti í auknum mæli að greiða fyrir þjónustuna, einnig í heilbrigðisgeiranum og vísa ég þar í sérstakan bækling sem fjmrn. gaf út í tíð forvera núv. hæstv. fjmrh. þar sem gerð var grein fyrir þessari stefnu.

Núna hafa aðrar áherslur verið teknar upp og í anda Verslunarráðsins sem fyrir hönd sinna umbjóðenda vill komast inn í þessa þjónustu. Nú er sagt: Skattborgarinn á að greiða fyrir þjónustuna en framkvæmdin á að vera einkarekin. Og ég er ekki alveg sammála hæstv. heilbrrh. að því leyti að þetta skipti engu máli fyrir notandann. Það getur gert það. Hann vísar í útboð á heilbrigðisþjónustu í Salahverfinu. Sú hætta er nefnilega fyrir hendi að ef þjónustan er skipulögð á markaðsforsendum, það eru fjárfestar sem reka hana, þá gera þeir það með það fyrir augum að hafa sem mestan hagnað út úr henni. Það getur bitnað á þjónustunni.

Ég geri hins vegar skýran greinarmun á sjálfseignarstofnunum annars vegar, og þar er ég sammála hæstv. ráðherra þegar hann vísar í öldrunargeirann, sjálfseignarstofnunum á borð við DAS, Hrafnistu o.s.frv. og fyrirtækjum sem rekin eru í hagnaðarskyni. Hugtök skipta máli því það er tekist á um þau. Þau vísa inn í þann veruleika sem við erum í þann veginn að smíða.