Fjárlög 2004

Föstudaginn 03. október 2003, kl. 15:40:27 (99)

2003-10-03 15:40:27# 130. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 130. lþ.

[15:40]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að ég er ekki mjög vel að mér í sovéskum eftirlitskerfum en ég næ því einhvern veginn ekki heim og saman að það sé alveg samasemmerki á milli þess að það þurfi ekkert eftirlit ef það eru opinberir aðilar sem sjá um þjónustuna en það þurfi því meira eftirlit ef hún er rekin á þennan hátt.

Ég er auðvitað ekki að mæla með eftirlitssveitum í smæstu atriðum, auðvitað hafa menn sínar tékkprufur á því eins og dæmin sanna. En ég get ekki skilið að það sé náttúrulögmál að það þurfi ekkert eftirlit ef þjónustan er ríkisrekin. Það þarf vissulega. Landlæknisembættið sér t.d. um eftirlit með þjónustu sjúkrastofnana og það er eftirlitskerfi þar í gangi. Því miður þurfum við að halda uppi eftirlitskerfum í nútímasamfélagi. En ég held að þetta séu nokkuð dramatískar lýsingar að menn þurfi að kanna á hverjum degi hvað er í súpunni hjá þessum aðilum. Ég held að hv. 9. þm. Reykv. s. máli myndina nokkuð sterkum litum hvað þetta snertir.