Fjárlög 2004

Föstudaginn 03. október 2003, kl. 16:07:45 (104)

2003-10-03 16:07:45# 130. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., MÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 130. lþ.

[16:07]

Mörður Árnason (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka svör sem fengist hafa hjá hæstv. fjmrh. og bera því vitni að hann gerir sér grein fyrir þeim vanda sem við er að eiga hvað varðar lífeyrisskuldbindingarnar.

Það vekur hins vegar athygli mína að um annað fyrirtæki ríkisins eða stofnun á þess vegum í ekki óhliðstæðri stöðu, einmitt Sinfóníuhljómsveit Íslands, er sérstaklega fjallað í greinargerð fjárlagafrv. og sagt frá því að stefnt sé að samkomulagi milli rekstraraðila um skiptingu í þessum lífeyrishækkunum. Það er flóknara dæmi auðvitað en það sem við ræðum nú varðandi Ríkisútvarpið að því leyti að þar eru Seltjarnarnesbær og Reykjavík og fleiri inni í myndinni. Þar hefur verið viðurkenndur sá vandi sem þessi sérstöku fyrirtæki og stofnanir eiga við að glíma og felst í því af hálfu Ríkisútvarpsins að Ríkisútvarpið getur ósköp einfaldlega ekki beðið um hækkuð framlög til þess að ráða við þessar skuldbindingar eins og aðrar ríkisstofnanir geta gert.

Ég fagna því þeim upplýsingum frá hæstv. fjmrh. að hæstv. menntmrh. sé að kanna þessi mál og mun ég þegar tækifæri gefst síðar spyrja hæstv. menntmrh. nánar um það.