Fjárlög 2004

Föstudaginn 03. október 2003, kl. 16:09:09 (105)

2003-10-03 16:09:09# 130. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., GÁS
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 130. lþ.

[16:09]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Frú forseti. Fólk hefur stundum á orði að við stjórnmálamenn tölum óskýrt og við hv. þingmenn í þessum sal höfum ekki sama tungutak og almenningur í landinu, að erfitt sé að skilja hvað við erum að fara og hvað við meinum. Það er sumpart dálítið til í þessu og umræðan í dag finnst mér undirstrika talsverð sannindi í þessum fullyrðingum.

Það er nefnilega afskaplega skrýtið að þegar líður að kosningum, þegar kosningabarátta stendur sem hæst, þá taka stjórnmálamenn upp á því að tala afskaplega skýrt, kalla hlutina sínum réttu nöfnum og koma hreint og beint fram. Það gerðu, held ég, allir stjórnmálaflokkar fyrir síðustu kosningar, ekki síst ríkisstjórnarflokkarnir. Þeir töluðu afskaplega skýrt um hvað þeir ætluðu að gera á næsta kjörtímabili og hvað þeir ætluðu að gera núna þetta haustið.

En svo bregður við að þegar eitt helsta grundvallarskjal nýrrar ríkisstjórnar birtist þingheimi og alþjóð, nefnilega fjárlagafrv., þá vantar þennan samhljóm. Það er eins og enginn hafi sagt neitt fyrir síðustu kosningar. Það er eins og hér hafi byrjað eitthvert nýtt líf sem enginn áður kannaðist við núna á sumardögum. Allt er breytt og allt er orðið flóknara og erfiðara og tæknilegra en áður var.

Skattalækkanir upp á 28 milljarða kr. á árunum 2003 til og með 2006, fram á mitt árið 2007, eru nú 20 milljarðar kannski og einhvern tíma og ef og með einhverjum óskilgreindum hætti.

Nú kemur hæstv. fjmrh. hér og talar um að loforð fyrir kosningar af hálfu Sjálfstfl. standi ekki því að nú væri til kominn vegvísirinn, nýr stjórnarsáttmáli. En auðvitað töluðu báðir stjórnarflokkarnir, Sjálfstfl. og Framsfl., mjög í sama dúrnum fyrir síðustu kosningar og höfðu báðir oddvitar stjórnarflokkanna, þáverandi og núverandi, það á orði að þeirra áherslur færu mjög saman, nefnilega að lækka skatta, frú forseti, að lækka skatta. Ég hef tekið eftir því í sumar að hinir ungu, ötulu nýliðar á þingi af hálfu stjórnarflokkanna, sem nokkrir sitja nú í salnum, hv. þm. á borð við Bjarna Benediktsson, Guðlaug Þór Þórðarson, Sigurð Kára Kristjánsson og Birgi Ármannsson, höfðu það á orði nú um mitt sumar að þeir hlökkuðu til að takast á við verkefni haustsins og fara að lækka skatt á almenningi. Frú forseti. Hvernig ætli þessum ágætu hv. þm. líði núna við þær aðstæður að skattalækkunin, vegferð þeirra inn á Alþingi hefur snúist upp í andhverfu sína og birtist almenningi og þjóðinni allri í því formi að það eru skattahækkanir upp á 4 milljarða króna? Hvernig heldur frú forseti að þessum ágætu þingmönnum líði nú, búnum að berjast hart fyrir sínu sæti, fara út um allar koppagrundir og lofa því að þeir ætli að koma og standa sig, en lenda síðan í hremmingum? Þeir lenda í gömlum refum sem taka þá í nefið og segja: ,,Seinna, kannski, ef allar kringumstæður verða í þokkalegu lagi.`` Ég hef mikla samúð, frú forseti, með þessum ágætu nýliðum á þingi og trúi því að þeim líði ekkert allt of vel við þessar kringumstæður.

Eins er líka með gamla refi eins og sérfræðing Sjálfstfl. í skattamálum og í efnahagsmálum, hv. þm. Einar Odd Kristjánsson, sem hefur hér á liðnum árum flutt heimsendaræður um ýmsa hluti. Hann viðhafði hinn lágværa tón í dag af eðlilegum orsökum. Hann fór ekki mikinn eins og oft áður. Honum líður að sönnu líka illa því að ég þekki hann af góðu einu og veit að honum líður illa að skrökva að fólki, geta ekki staðið við þau fyrirheit, þau loforð sem hann gaf kjósendum sínum á Vestfjörðum og raunar um landið allt.

Frú forseti. Það er óþolandi að stjórnmálamenn komist upp með það trekk í trekk að segja eitt fyrir kosningar og annað eftir þær. Takið eftir öðru. Nú er þessum loforðum vísað á framtíðina. Og hvaða framtíð er það? Jú, árin 2006 og 2007. Og hvað gerist árið 2007? Jú, þá verður kosið aftur. Þá á að endurnýta þessi sömu skattalækkunarloforð sem voru notuð liðið vor. Haldið þið að það sé! Er mikill mannsbragur að þessu? Er að undra þótt menn tali um að þessi ríkisstjórn Davíðs Oddssonar, ríkisstjórn helmingaskiptaflokkanna, sú þriðja í röðinni, fari nú heldur betur vængbrotin, þreytt á sjálfri sér og rúin öllu þreki og þori inn í sitt þriðja kjörtímabil? Mér segir svo hugur, herra forseti, að kannski komi allt aðrir aðilar, allt aðrir flokkar, allt önnur ríkisstjórn til með að þurfa að efna þessi loforð um að lækka álögur á almenning. Ég er ekki búinn að sjá það, herra forseti --- ég hef nú stundum verið forspár í pólitík --- að þessi ríkisstjórn lifi næstu fjögur ár. Það er önnur saga.

[16:15]

Ég kalla eftir skýrum svörum við því, eins og margir minna kollega hafa gert hér, hvar sá misskilningur geti legið, ef einhver misskilningur er á ferðinni, þegar hæstv. forsrh. þáv. og núv. lofaði því að það yrði lögfest með hvaða hætti, hvenær upp á punkt og prik, þessar skattalækkanir litu dagsins ljós. Verður flutt frv. þess efnis, hæstv. fjmrh., þar sem menn fá að sjá það upp á punkt og prik hvernig menn ætla að reyna að efna þó ekki sé nema hluta af þessu skattalækkunarkosningaloforði frá því í vor? Ég bið um skýrt svar við þeirri spurningu því hún er afskaplega einföld þessi spurning og svarið ætti að sama skapi að geta orðið það. Og stjórnarþingmenn væru menn að meiri að viðurkenna það þá strax núna á upphafsdögum þingsins að þeir geti ekki staðið við stóru orðin. Þetta hafi verið innantóm loforð eingöngu sett fram til þess að laða kjósendur að flokkunum sínum í hita kosningabaráttunnar. Þeir væru menn að meiri að viðurkenna það núna strax. Ég hef ekki mikla trú á því þeir geri það, því miður. En þá verða þeir auðvitað að búa við það, frú forseti, að þeir verði minntir á það hér. Ekki kannski daglega, en a.m.k. vikulega þar til einhverjar efndir verða.

Virðulegur forseti. Það er auðvitað ekki aðeins Sjálfstfl. sem þarna á sök. Ég vil ekki gleyma veslings Framsókn í þessum efnum, það er engin ástæða til þess, sem fór fram með sérstaka áherslu á börn og ungmenni og þeir gleyma þeim ekki. Börn og ungu fjölskyldurnar fá alveg sérstaka sendingu frá nýjum félmrh., hæstv. félmrh. Árna Magnússyni, þar sem vaxtabætur eru lækkaðar um 600 millj. kr. Það var aldeilis sendingin, fyrsta sendingin frá nýjum og vöskum vonandi hæstv. félmrh. sem ég óska auðvitað alls hins besta í starfi. En vond voru hans fyrstu skref. Ég kalla á sama hátt eftir því hvenær Framsókn ætlar að skila sínum loforðum í hús. Ekki sé ég það hér í þykkri bók hæstv. ráðherra og raunar mörgum. Það er ekki að finna í þessu fjárlagafrv.

Virðulegur forseti. Það er vond lykt af þessu máli. Þetta er ekki þessu húsi til sóma. En auðvitað bera þeir hina stærstu ábyrgð sem með stjórnina fara.

Ég gæti margt sagt um þetta fjárlagafrv. Ég ætla að geyma mér það. Við eigum eftir langt og heitt haust í þessari umræðu allri. Ég vil þó nefna það í framhjáhlaupi af því ég veit að hæstv. heilbrrh. er hér í húsinu og rifja það upp að eitt síðasta verkið sem hann skilaði af sér á vordögum var það að breyta skipan stjórna heilsugæslu með því að klippa út fulltrúa sveitarfélaga. Sex mánuðum síðar hefur hann gersamlega snúið við blaðinu og nú vill hann senda heilsugæsluna heim í hérað og ég er alveg hjartanlega sammála þeirri stefnumörkun. En þarna rekst hvað á annars horn eins og stundum áður.

Ég verð þess einnig var að í þessu fjárlagafrv. er ekki að finna fyrirheit sem hann hefur gefið víða um land, m.a. í minni heimabyggð, um að efla þar stórlega heilsugæsluna með til að mynda byggingu útibús í Hafnarfirði og raunar víðar um land. Og ekki er ein aukatekin króna í rekstur slíkrar viðbótarþjónustu á vettvangi heilsugæslu. Því skilar hann auðu, því miður. Og það gengur auðvitað ekki, það skulu menn vita, að enn einn ganginn leggi menn til viðræðu við sveitarfélögin í landinu með tiltekin nærverkefni eins og heilsugæslan sannarlega er, með hana í fullkominni rúst og með hluti sem sveitarfélögin eiga síðar meir að bæta úr af mjög rýrum tekjustofnum. Grunnskólinn er þar víti til varnaðar.

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að orðlengja þetta. Hér hef ég aðeins lagt inn nokkur orð í þetta og haft lítið tækifæri og tíma til að fara inn í einstaka liði þessa máls, liði fjárlagafrv. En það stendur auðvitað upp úr, herra forseti, að þeir mega skammast sín þeir þingmenn sem fóru með loforðalista á hendur fólki fyrir síðustu kosningar og koma núna með allt niður um sig. Mikil er skömm þeirra.