Fjárlög 2004

Föstudaginn 03. október 2003, kl. 16:52:17 (109)

2003-10-03 16:52:17# 130. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., GÞÞ
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 130. lþ.

[16:52]

Guðlaugur Þór Þórðarson:

Virðulegi forseti. Ef þessi umræða hefur sýnt eitthvað þá er það að hér er afskaplega gott ástand eins og menn þekkja. Ég held í rauninni að ræður stjórnarandstæðinga hafi sýnt okkur það með óyggjandi hætti.

Það er svolítið athyglisvert þegar skoðaðir eru helstu mælikvarðar sem menn hafa, hvort sem það er kaupmáttaraukning, hagvöxtur, atvinnustig eða annað slíkt, þá er ekki nokkur vafi að gríðarlegur árangur hefur náðst í efnahagsmálum þjóðarinnar. Ég hlustaði á formann Samf. í morgunsjónvarpinu á Stöð 2 í morgun. Hann taldi að það hefðu verið ákveðin tímamót í gær, ef ég skildi hann rétt, þar sem hann ræddi í sinni ræðu um að Samf. vildi að við mundum sækja beint um aðild að Evrópusambandinu. Ég sakna þess í hinum mörgu ræðum sem samfylkingarþingmenn hafa haldið að þeir vitni ekki í það hvernig ástandið er í helstu löndum ESB og útskýri fyrir okkur sem erum að ná mun betri árangri, af hverju í ósköpunum við skyldum fara í þann ágæta hóp og í þann klúbb.

Það er hins vegar eðli málsins samkvæmt, eins og kom fram hjá hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni, ekkert grín að vera í stjórnarandstöðu núna. Það má segja að mönnum sé ákveðin vorkunn að þurfa að taka þessa umræðu. Það er hins vegar mjög mikill stigsmunur á því hvernig menn taka hana. Ég verð að nota tækifærið og hrósa hv. þm. Ögmundi Jónassyni, sem flutti, að mínu áliti, málefnalegar ræður og var eini þingmaðurinn í stjórnarandstöðunni sem talaði um stóru málin sem snúa að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Þar eru stórar upphæðir, gríðarlegar upphæðir, og ég ætla að koma aðeins að því á eftir.

Hins vegar kom hér hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson sem flokkaði okkur stjórnarsinna niður eftir aldri og talaði um gamla refi og þá sem yngri voru og vorkenndi okkur ofsalega og fór mikinn. Ég sakna þess að hann sé ekki í salnum og vona að hann heyri það sem ég hef að segja. Það var mjög furðuleg röksemdafærsla. Ef ég skildi hann rétt þá taldi hann, ég veit ekki hvaðan hann hefur þær upplýsingar, að hér yrðu engir skattar lækkaðir á kjörtímabilinu. Af hverju? Jú, svo að stjórnin gæti endurnýtt kosningaloforðin í næstu kosningum, eins og hann orðaði það. Þetta er alveg furðuleg röksemdafærsla. Er þingmaðurinn og Samfylkingin almennt á þeirri línu að menn ætli, það er þá í fyrsta skipti sem þessir flokkar standa ekki við stjórnarsáttmálann, að sleppa því að lækka skatta til þess að geta lofað því aftur fyrir næstu kosningar? Þetta er alveg furðulegur málatilbúnaður.

Annað sem kom fram hjá ... (Gripið fram í.) Já, ég skil vel að hv. þm. Einar Már vilji ekki ræða skattamálin. Það var svolítið gaman vegna þess að maður hélt kannski í smástund að við værum að fá stuðning frá þingmönnum Samfylkingarinnar í skattalækkunarumræðunni. Síðan kom hv. þm. Einar Már Sigurðarson og blés það allt af og skammaði okkur mikið fyrir að ætla að lækka þennan illræmda hátekjuskatt og leggja hann af, ef ég skildi þingmanninn rétt.

Einnig sagði hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson, svo ég vitni beint í orð hans að heilsugæslan væri ,,í fullkominni rúst.`` Heilsugæslan í fullkominni rúst. Hvorki meira né minna. Þetta er engin smáfrétt. Ég fullyrði að það vissi enginn af því að heilsugæslan væri í fullkominni rúst. Þetta er ekki málefnafátækt. Þetta er málefnaörbirgð. Það sýnir, held ég, alveg hvernig ástandið er hjá stjórnarandstöðunni þegar þeir koma hér í langri röð og gagnrýna þetta fjárlagafrumvarp og áætlanir ríkisstjórnarinnar, þá hafa þeir ekkert betra í höndunum en þetta.

Ég veit ekki hversu oft ég á að segja það, en ég er afskaplega stoltur af því að menn hafa aldrei áður farið út í það að lækka skatta jafnmikið og nú liggur fyrir. Aldrei áður hefur nein ríkisstjórn farið út í jafnmiklar skattalækkanir eins og sú ríkisstjórn sem nú situr. Það er afskaplega ánægjulegt fyrir okkur sem yngri erum að geta tekið þátt í slíku starfi.

Ég ætla aðeins að koma að því sem mér finnst hafa vantað algjörlega í þessa umræðu, þá tala ég af því menn eru svolítið búnir að flokka okkur eftir aldri, það er málið sem snýr að framtíðinni. Það er afskaplega ánægjulegt, svo ég vitni í reynsluheim minn og hv. þm. Helga Hjörvars, sem hefur mátt, í borgarstjórn Reykjavíkur á hverju ári, sjá skuldir aukast, ekki smávegis, heldur stórkostlega. Þá sjáum við að þessi ríkisstjórn og ríkisstjórnir sem á undan hafa verið hafa stórlega lækkað skuldir ríkisins. Það er nefnilega svo að það er bara einn galli við skuldir, það þarf að greiða þær. Skuldir í dag er skattur á morgun. Ég vil, með leyfi forseta, lesa úr ræðu hæstv. fjmrh. Geirs Haarde. Hann segir: