Fjárlög 2004

Föstudaginn 03. október 2003, kl. 17:09:08 (114)

2003-10-03 17:09:08# 130. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., KHG
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 130. lþ.

[17:09]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Í fyrri ræðu minni í dag gerði ég grein fyrir afstöðu minni til fjárlagafrv. almennt og þeirra atriða sem ég tel helst vera frv. til tekna. Ég nefndi auk þess hátekjuskattinn, viðhorf mitt til hans og átti eftir að fara yfir nokkur atriði sem ég tel ástæðu til að taka upp og vekja athygli á og tel að vinna þurfi að því að lagfæra frá því sem sett er upp í fjárlagafrv.

Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um hátekjuskattinn. Ég var búinn að koma öllu að sem ég tel máli skipta hvað hann varðar. En varðandi annað atriði sem ég ætla að nefna, fjármagnstekjuskattinn, þá vil ég ítreka það sjónarmið sem ég setti fram á sínum tíma þegar hér var ákveðið á Alþingi að taka upp fjármagnstekjuskatt, 10% almennan skatt, að ég teldi að skattur á fjármagn ætti að vera með sama hætti og skattur á vinnulaun. Ég tel að það eigi ekki að gera greinarmun á því hjá ríkisvaldinu hvort menn vinna fyrir sér með því að selja vinnuafl sitt eða með því að eiga fjármagn sem ávaxtar sig. Það er mín almenna afstaða til málsins. Ég studdi hins vegar 10% fjármagnstekjuskattinn á sínum tíma vegna þess að það var framför frá því sem þá hafði verið, en enginn slíkur skattur hafði verið fram að því.

Ég minni á að á Norðurlöndum, svo dæmi sé tekið, er fjármagnstekjuskattur einstaklinga mun hærri en hér á landi. Samkvæmt upplýsingum í vefriti fjmrn. í sumar er fjármagnstekjuskattur einstaklinga í Finnlandi, Noregi og Svíþjóð 28--30%, en í Danmörku er hann stighækkandi frá 28% upp í 43%. Það er töluverður munur á þessari skattlagningu annars vegar og 10% skattlagningu sem við höfum hér hins vegar. Þó ber að geta þess að við höfum nánast engar undanþágur frá 10% skattlagningunni en á Norðurlöndunum eru frítekjumörk sem gera muninn minni en þessar prósentutölur gefa til kynna. Engu að síður er fjármagnstekjuskattur mun hærri þar en hér á landi.

Ég tel að menn eigi að hækka fjármagnstekjuskatt. Ég er tilbúinn að standa að því að hækka fjármagnstekjuskatt og hef talað fyrir því áður. Ég tel ekki eðlilegt að menn sem eru í þeirri aðstöðu að geta stofnað fyrirtæki um eigin atvinnurekstur geti skammtað sér tekjur með því að taka þær út sem arð, greiddan ofan á hlutabréfaeign í fyrirtækinu. Það er ekki eðlilegt að menn séu í þeirri stöðu að geta lækkað greiðslur sínar til samfélagsins með skattalegum úrræðum. Við eigum ekki, í tekjuskattslögum, að gera svo mikið upp á milli þeirra annars vegar sem afla sér tekna með vinnu og hinna sem eiga háa fjárhæðir og afla sér tekna með því að leigja þá peninga út. Það er bara ekki sanngjarnt.

Mér finnst það ekki sanngjarnt að þeir menn --- og þeir eru margir á síðustu fáum árum sem hafa orðið mjög efnaðir, eins og menn þekkja úr sjávarútveginum --- að slíkir menn og fleiri borgi ekki almennilega skatta til samfélagsins. Þeir eru hluti af samfélaginu en ekki utan við það. Þeir eiga að leggja inn en ekki bara að taka út.

Ég vil rifja upp það sem kom fram í fréttum fyrr í vikunni, ræðu Kåre Willochs, sem var áður formaður norska hægriflokksins. Hann er mikill hægri maður. Hann er ekki stuðningsmaður þess að menn greiði háa skatta. Það vita svo sem allir sem hafa fylgst með stjórnmálum bæði hjá honum og öðrum hægri mönnum í Noregi. En honum er farið að blöskra siðferðið í skattamálum þar sem menn gera upp á milli skattlagningar vinnu annars vegar og skattlagningar tekna af fjármagni hins vegar.

Hann segir í ræðu sinni um norska skattkerfið, sem skattleggur þó fjármagnstekjur mun hærra en hið íslenska, með leyfi forseta:

,,Det norske skattesystemet er urettferdig og etisk for\-kastelig.``

[17:15]

Það er ekki lítið sagt. Það er óréttlátt og siðferðilega forkastanlegt að gera þennan mikla greinarmun á skattlagningu tekna af vinnu annars vegar og tekna af fjármagni hins vegar. Og það er nefnilega þannig að í pólitík getum við ekki sett allt á einhverja stærðfræðilega mælikvarða og sagt að svona eigi það að vera og svona eigi þetta ekki að vera. Það eru nefnilega mannlegir hlutir og viðhorf sem koma þar til skjalanna. Það á að gera það líka hér á landi í skattapólitík eins og annars staðar. Við eigum ekki að tala upp í eyrun á mönnum sem eiga fullt af peningum, dekstra þá og tala fyrir því að það sé eðlilegt og sjálfsagt að þeir borgi litla skatta og það sé eðlilegt og sjálfsagt að gera allan fjandann til að koma sér hjá því að borga skatta. Það viðhorf þykir mér orðið mjög almennt í þjóðfélaginu á síðustu árum, sérstaklega hjá fólki í fjármálaheiminum, að það sé bara eðlilegt og sjálfsagt ef menn finni leiðir í skattalögum til þess að komast hjá því að borga skatta. Viðhorfið er nánast að menn séu menn að meiri fyrir það. Ég er ekki sammála því. Menn eru menn að minni ef þeir vilja ekki taka þátt í samfélaginu og borga skatta eins og hver annar launþegi hér á landi. Við verðum að fara að breyta þessu viðhorfi og það gerum við í gegnum pólitíkina og það gerum við í gegnum ákvarðanirnar í skattamálum. Ég tel fulla ástæðu til þess að menn taki þessa umræðu hér í þingsölum bæði nú og síðar til þess að fara að snúa ofan af þessari græðgi og vitleysu sem viðgengist hefur á undanförnum árum í þessum efnum.

Ég vil nefna nokkur önnur atriði sem ég tel ástæðu til að staldra við og vinna að því að færa til betri vegar.

Mér finnst það sem fram kemur í fjárlagafrv. um komugjöld á heilsugæslustöðvar vera eiginlega stórt spurningarmerki. Og ég spyr: Hvað vakir fyrir mönnum að vera að hækka komugjöld á heilsugæslustöðvar um hundraðkall og ná þar fram nokkrum tugum millj., kannski 40--50 millj. kr.? Það er innan við 1% af kostnaði við að reka heilsugæslustöðvarnar. Og hvert er markmiðið? Er markmiðið að koma í veg fyrir einhverja ofnotkun á heilbrigðiskerfinu? Hafa menn einhver skipulögð markmið í þeim efnum? Og hafa menn eitthvað mælt hver árangurinn er? Hverju ætla menn að ná fram? Ég segi: Þegar menn eru að tala um að það séu aðstæður til að lækka skatta um 20 milljarða kr. á næstu árum, hver er þá þörfin á því að fara að sækja 40 millj. kr. í komugjöld til heilsugæslustöðva? Ég átta mig ekki á því. Og ég fer fram á það að ríkisstjórnin færi betri rök fyrir þessu máli en fram koma í fjárlagafrv.

Ég segi í öðru lagi líka varðandi fyrirhugaða breytingu á lögunum um atvinnuleysisbætur: Hver eru rökin fyrir því að fólk sem er atvinnulaust eigi ekki að fá atvinnuleysisbætur í þrjá daga? Hver eru rökin? Hverju ætla menn að ná fram? Eru menn að segja að fólk sem er atvinnulaust sé að ofnota kerfið? Er þetta sett á til þess að koma í veg fyrir einhverja misnotkun? Ég hef engan heyrt tala um það, hvorki úr stjórnarliðinu né annars staðar að það væri einhver misnotkun í gangi á atvinnuleysisbótum.

Mér finnst að menn geti ekki sett svona fram í fjárlagafrv. án þess að færa fyrir því boðleg rök. Og það eru engin rök í fjárlagafrv. Ég fer fram á það við hæstv. fjmrh. í allri vinsemd að hann rökstyðji fyrir þingheimi hvaða nauðsyn reki hann til þess að leggja þetta til á þessari bls. 374 í fjárlagafrv. þegar á hinni blaðsíðunni sem ég skoða kemur fram að hann sjái það sólskin fyrir sér að hægt sé að lækka skatta um 20 þús. millj. kr.? Það verður að vera eitthvert innra samræmi í þessum hlutum.

Ég tala auðvitað sem félagshyggjumaður vegna þess að ég er það og minn flokkur skilgreinir sig sem félagshyggjuflokk. Ég hef aldrei séð það fyrir mér að félagshyggjuflokkur teldi það vera eitt af brýnustu verkefnum stjórnmála dagsins að taka af mönnum rétt til atvinnuleysisbóta. Það er eitthvað nýtt sem ég hef aldrei heyrt.

Ég vil svo að lokum, herra forseti, nefna fyrirhugaðar breytingar á vaxtabótum. Það kemur fram að meiningin sé að draga úr rétti til vaxtabóta með því að lækka þær skuldir sem mynda stofn til vaxtabóta úr 7% niður í 5,5%. Ég get ekki fallist á þau rök sem nefnd eru fyrir þessu atriði, að raunvextir hafi lækkað. Hafi raunvextir lækkað kemur það fram hjá ríkissjóði með lægri vaxtabótum. En þeir sem tóku skuldirnar sínar eins og húsbréf á sínum tíma sitja uppi með sína raunvexti og þeir breytast ekki.