Fjárlög 2004

Föstudaginn 03. október 2003, kl. 17:19:35 (115)

2003-10-03 17:19:35# 130. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., JBjarn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 130. lþ.

[17:19]

Jón Bjarnason (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kom fram í ræðu hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar áðan að hann lýsti beinni andstöðu við ákveðna þætti sem eru veigamiklir í vegferð þessa fjárlagafrv., annars vegar hækkun á komugjöldum og hins vegar lækkun atvinnuleysisbóta. Þetta er upphaf, í rauninni hugmyndafræðilegt upphaf að næstu árum. Þetta er ekkert smámál. Upphæðin sjálf er ekki aðalatriði heldur sú hugmyndafræðilega vegferð sem þarna er verið að leggja upp í og hefur verið ítrekað hér í umræðunum að sé sá hugmyndafræðilegi grunnur sem byggt verði á á næstu árum. Enda eru líka skattalækkunarhugmyndir ríkisstjórnarinnar að verða að veruleika, byggja á auknum notendagjöldum sem koma í staðinn í velferðarþjónustunni. Það var því athyglisvert að heyra hv. þingmann lýsa sig fullkomlega andvígan þessum sjónarmiðum í fjárlagafrv.

Ég vil hér spyrja hv. þingmann: Var þetta fjárlagafrv. ekkert rætt í þingflokki framsóknarmanna áður en heimilað var að leggja það fram? Maður verður að gera ráð fyrir því að þetta sé sameiginlegt frv. beggja flokkanna enda hefur það komið fram í umræðunum áður að Framsfl. styður dyggilega markaðsvæðingu almannaþjónustunnar eins og þetta frv. leggur upp með. Var þetta ekkert rætt í þingflokki framsóknarmanna áður en það var lagt fram? Eða eru kannski fleiri þingmenn Framsfl. sömu skoðunar og hv. þm. í þessum efnum hér? Það er mikilvægt að þetta komi fram. Ríkisstjórnin styðst ekki við svo mikinn meiri hluta að það væri fróðlegt að vita hvaða meðferð þingflokkur Framsfl. hefur haft á þessu fjárlagafrv.