Fjárlög 2004

Föstudaginn 03. október 2003, kl. 17:21:52 (116)

2003-10-03 17:21:52# 130. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 130. lþ.

[17:21]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki sammála því að hækkun á komugjöldum til heilsugæslustöðva sé veigamikið mál í fjárlagafrv. Í raun og veru finnst mér þetta vera ákaflega lítið mál. Veigamesta málið er auðvitað staðan í efnahagsmálum og ríkisfjármálum. Ég fór rækilega yfir það hvernig hún var að mínu mati og ég tel að ríkisstjórnin hafi staðið sig mjög vel í því sem m.a. lýsir sér í því að menn treysta sér til þess að vinna að því að lækka skatta.

Þess vegna finnst mér bara ekki ná nokkurri átt þegar menn eru í þessari góðu stöðu og sjá fram á það að geta lækkað skatta í svona stórum stíl, eins og menn hafa sett fram sem markmið, að vera að sultast í þessum komugjöldum á heilsugæslustöðvum, hækkun upp á hundraðkall til að ná í 40--50 millj. Ég bara næ ekki röksemdunum fyrir því. Ég segi það bara, herra forseti. Ég er bara ... (Gripið fram í: Frú virðulegi forseti.) Ég segi það bara, herra forseti. Ég er algjörlega ósammála því að það sé atriði sem ríkisstjórnin eigi að grípa til við þessar aðstæður, ekki nema menn geti sýnt fram á það að komugjöldin hafi einhver þau áhrif sem takmarki kostnað í kerfinu. Ég hef ekki séð það. Ég hef ekki heyrt þau rök að menn ætli að leggja á komugjöld til þess að draga úr komum eða að draga úr einhverjum vaxandi kostnaði sem þeir réðu ekkert við. Þær aðstæður eru ekki uppi í heilsugæslustöðvunum að mínu mati. En hafi menn þau rök koma þau væntanlega fram.

Meðan menn rökstyðja ekki málið betur en gert er get ég ekki fallist á að þetta sé atriði sem við eigum að beita okkur fyrir. Ég verð að segja það eins og er, herra forseti.