Fjárlög 2004

Föstudaginn 03. október 2003, kl. 17:45:42 (122)

2003-10-03 17:45:42# 130. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 130. lþ.

[17:45]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ja, skipað gæti ég væri mér hlýtt, sagði karlinn. En það er ekki svoleiðis. Ég held að það sé einlægur vilji ríkisstjórnar og stjórnarandstöðu, og það hefur komið fram á mörgum undanförnum árum, að við reyndum að stemma stigu við þessari aukningu. Við höfum heldur ekki getað það. Við höfum ekki klárað það verkefni. Ég skal auðfúslega viðurkenna það. Við höfum sett okkur markmið um það og við höfum sett okkur reglur um það en það hefur ekki gengið eftir. Ástæðurnar eru margbrotnar. Þetta vandamál eru fleiri þjóðþing að fást við en Íslendingar. Þetta er vandamál sem öll þjóðþing Evrópu eru að fást við.

Ég gat þess áðan að þetta mál hafi verið mjög mikið til umfjöllunar hjá Evrópudeild WHO í Kaupmannahöfn. Þar hafa menn á undanförnum árum verið að reyna að átta sig á því hvernig á þessu stendur og niðurstaðan hjá flestum er sú að þessi mikla tilhneiging til að færa alla hjúkrun og allt sjúkrahússtarf upp á hæsta tæknistig sé aðalvandinn. Þess vegna eru menn að reyna að búa til og reyna að finna hvernig þeir geti snúið þessu við, hvernig færa megi vinnuna niður í heilbrigðisþjónustuna, niður á grunnplanið, til þess að reyna að lækka þennan kostnað. Þetta er hið mikla viðfangsefni sem ríki í Evrópu eru að fást við. Sum hafa náð verulegum árangri, að ég ætla, önnur minni. Ég held að við séum á því stigi að við verðum að horfast í augu við það að við verðum að endurskipuleggja þetta, leita allra leiða, viðurkenna að þrátt fyrir góðan vilja og góða menntun þeirra manna sem um þetta fjalla þá hefur skipulagið ekki dugað. Þá er að horfast í augu við það og leita allra annarra fáanlegra leiða.