Fjárlög 2004

Föstudaginn 03. október 2003, kl. 17:48:58 (124)

2003-10-03 17:48:58# 130. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 130. lþ.

[17:48]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil ítreka sjónarmið mitt sem ég setti fram áðan. Ég vara við heimsendamálflutningi um íslenska heilbrigðiskerfið. Ég er ekki sammála því sem hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson hefur ítrekað haldið fram hér í þingsölum að íslenska heilbrigðiskerfið stefndi í óskaplegan vanda vegna þess að í því væri einhver kostnaðaraukning sem menn réðu ekkert við. Það er bara ekki rétt miðað við þær tölur og þau gögn sem við höfum undir höndum og höfum getað litið á.

Kostnaður við íslenska heilbrigðiskerfið er um 8% af vergri landsframleiðslu. Af því greiða neytendur eða þeir sem nota þjónustuna um 1%, eða um 15% af kostnaðinum. Það má deila um það hvort það sé rétt hlutfall. Ég er þeirrar skoðunar að það sé of hátt. Þannig að ríkið er að borga um 7%.

Í Bandaríkjunum höfum við mjög einkavætt kerfi og tryggingafélagavætt kerfi. Kostnaðurinn við það er um 14% af landsframleiðslu Bandaríkjamanna. Og þeir sem nota þjónustuna borga nærri helminginn af henni beint úr eigin vasa. Ef við förum út á þá braut að einkavæða meira en við höfum gert þá eigum við á hættu að lenda inn á þessu spori.

Kostnaðaraukning í íslenska heilbrigðiskerfinu á undanförnum árum hefur fyrst og fremst verið vegna kjarasamninga, vegna þess að menn hafa samið um að bæta kjör þess fólks sem vinnur í íslenska heilbrigðiskerfinu og bætt það mjög mikið og verulega umfram almenna launamarkaðinn. Ég veit ekki annað en það hafi verið sæmileg samstaða um það meðal stjórnarþingmanna að standa þannig að verki. Hæstv. fjmrh. hefur farið með það mál. Ég vænti þess að menn séu ekki að tala fyrir því að draga úr launakostnaði í komandi kjarasamningum að þessu leytinu til. Sá kostnaður sem mest hefur vaxið og gerð hefur verið sérstök athugasemd við af hálfu Ríkisendurskoðunar er sérfræðikostnaðurinn, það eru læknarnir sem vinna á eigin vegum og geta ráðið því sjálfir hvaða reikning þeir senda til ríkisins.