Fjárlög 2004

Föstudaginn 03. október 2003, kl. 18:14:31 (131)

2003-10-03 18:14:31# 130. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 130. lþ.

[18:14]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé alveg augljóst að tækniþróunarsjóði er ekki ætlað að fjármagna grunnrannsóknir samkvæmt þeim skilningi sem hefðbundið er að leggja í það hugtak.

En ég minnist þess að þegar nýskipan í fjármögnun vísindarannsókna var rædd hér á vorþingi, þá voru höfð frammi mikil fyrirheit og loforð og upphrópanir um stóraukið fé til rannsókna, þar á meðal til grunnrannsókna. Nú erum við að þrátta um það hvort dregið sé saman eða haldið í horfinu. Þetta eru öll stóru loforðin. Nú er illa komið, hæstv. fjmrh.