Fjárlög 2004

Föstudaginn 03. október 2003, kl. 18:16:14 (133)

2003-10-03 18:16:14# 130. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., HHj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 130. lþ.

[18:16]

Helgi Hjörvar (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir þau svör sem hann hefur veitt mér að svo miklu leyti sem hann veitti þau. Hvað varðar það verklag sem ég nefndi við fjárlagagerð og nýjungar í því sem ég vildi sjá í störfum þingsins þá þakka ég hvernig því var tekið af hæstv. fjmrh. og vil segja það að þó það hafi ekki þótt henta okkar aðstæðum fram að þessu þá tel ég að framfarir í vinnubrögðum við fjárlagagerð hjá fjármálaráðuneytinu og hjá ríkisstjórninni á umliðnum árum hafi núna skapað forsendur fyrir því að verklag hér í þinginu taki svipuðum og sambærilegum framförum sem leiðir af þeim nýju og betri starfsháttum sem fjmrn. hefur viðhaft.

Það er sömuleiðis gott að vita að félmrh. ætlar að huga að þeim vanda sem við sjáum fram á í Fæðingarorlofssjóðnum og gott að fá það alveg klárt og kvitt frá hæstv. fjmrh. Sjálfstfl. að það er Framsfl. að kenna að á þessu haustþingi verða aðeins flutt frumvörp hér í þinginu um skattahækkanir en ekki um skattalækkanir. Sjálfstfl. ber ekki ábyrgð á því heldur var það Framsfl. sem gerði þá kröfu í stjórnarmyndunarviðræðunum að hér á haustþinginu yrðu ekki flutt lagafrumvörp um skattalækkanir og þar af leiðandi hljóta þau frumvörp sem hér eru flutt um skattahækkanir vera á ábyrgð Framsfl. alveg sérstaklega.

Ég vil svo segja það, hæstv. fjmrh., að ég veit að það hefur ekki verið tekin ákvörðun um skiptingu á milli tekjuskatts og virðisaukaskatts á árinu 2007 af ríkisstjórninni. Það liggja þó fyrir, og það kom fram í samtali mínu í morgun við Bolla Bollason, embættismann í fjármálaráðuneytinu, að það liggja fyrir ákveðnar forsendur um upphæð tekjuskatts og um upphæð virðisaukaskatts árið 2007 fyrir þeim tölum sem hafa verið birtar opinberlega. (Forseti hringir.) Þær forsendur þarf auðvitað að hafa allan fyrirvara um að kunni að breytast og eigi eftir að taka pólitískar ákvarðanir um, en mér finnst nauðsynlegt að þær forsendur séu upplýstar.

(Forseti (BÁ): Forseti áminnir þingmenn um að virða tímamörk.)