Fjárlög 2004

Föstudaginn 03. október 2003, kl. 18:18:41 (134)

2003-10-03 18:18:41# 130. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 130. lþ.

[18:18]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Það er langt gengið í útúrsnúningum hér stundum. Ég hef ekki sagt að eitt eða neitt væri Framsfl. að kenna í þessum málum. Ég hef bara bent á það að flokkarnir hafa komið sér saman um ákveðna niðurstöðu. Ég tek á mig alla ábyrgð á þeirri tillögu um hækkun bensíngjalds sem núna liggur fyrir í þingsalnum og er tengd þessu frumvarpi. Það er ekki Framsfl. sem þröngvaði þeirri tillögu upp á mig eða annað eftir því. Ríkisstjórnarflokkarnir komust einfaldlega að sameiginlegri niðurstöðu um það hvernig í fyrsta lagi þeir leystu mál í stjórnarsáttmálanum þar sem áherslumunur var varðandi skattamálin. Það gerðum við mjög drengilega. Og nú erum við að fylgja því eftir. Það var hluti af því samkomulagi að tímasetja þessar breytingar á skattalögum með þeim hætti að það samræmdist ekki bara stefnu ríkisstjórnarflokkanna, heldur líka þannig að það væri innlegg í stóra málið sem hér er til umfjöllunar og úrvinnslu, þ.e. með hvaða hætti við ætlum að nota okkur ríkisfjármálin til að jafna sveiflur gagnvart þeim miklu framkvæmdum sem fram undan eru á næstu árum, hvernig við ætlum að láta skattamálin og ríkisfjármálin hjálpa okkur til þess að viðhalda stöðugleika, draga úr þenslunni þegar framkvæmdirnar eru sem mestar, en blása í glæðurnar þegar úr þeim dregur árið 2007.