Hugsanleg aðild Noregs að ESB

Mánudaginn 06. október 2003, kl. 15:01:06 (143)

2003-10-06 15:01:06# 130. lþ. 4.1 fundur 45#B hugsanleg aðild Noregs að ESB# (óundirbúin fsp.), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 130. lþ.

[15:01]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Þeir hafa mjög róið á sama borðið í Evrópumálunum, hæstv. forsrh. og forsætisráðherra Noregs, Kjell Magne Bondevik. Þeir hafa báðir verið næsta harðir andstæðingar þess að lönd þeirra gerist aðilar að Evrópusambandinu þó að hæstv. forsrh. hafi að vísu um sinn verið annarrar skoðunar þegar hann var formaður merkrar nefndar fyrir Sjálfstfl. í kringum 1990. En forsætisráðherrarnir hafa oft sótt styrk og ráð hvor til annars um Evrópumálin. Það má muna að á sl. vetri þegar skoðanakönnun sýndi að mikill meiri hluti Íslendinga vildi sækja um aðild brá hæstv. forsrh. á það ráð að fljúga til Óslóar til viðræðna við Bondevik. Þaðan kominn sagði hæstv. ráðherra að þeir Bondevik væru sammála um að Evrópuaðild væri ekki á dagskrá í löndunum tveimur. Þessu var eðlilega slegið vel upp í Morgunblaðinu.

En svo bregðast krosstré sem önnur tré. Í netútgáfu Aftenpostens í gær er greint frá merkri ræðu sem Bondevik hélt í Berlín þar sem hann bendir á að vegna stækkunar sambandsins, þar sem 25 ríki verða nú aðilar, sé mögulegt að samruninn verði ekki eins djúpur og menn óttuðust, eins og Bondevik kýs að orða það. Og hann vísar til þess að sum ríkjanna standa utan Schengen, önnur standa t.d. utan Myntbandalagsins, og hann segir að það opni ,,áhugaverða möguleika`` sem hann vilji skoða. Norskir fjölmiðlar hafa túlkað þetta svo að Bondevik sé að skoða þann möguleika að Noregur verði aðili að Evópusambandinu en semji sig undan ákveðnum skuldbindingum eins og raunar önnur ríki hafa gert tímabundið.

Í ljósi þess hversu samferða þeir hæstv. forsætisráðherrar Davíð Oddsson og Kjell Magne Bondevik hafa verið í Evrópumálunum langar mig að spyrja hvort hæstv. forsrh. Íslands telji mögulegt að þarna sé um að ræða raunhæfa leið sem hann gæti hugsanlega skoðað varðandi Ísland líkt og Bondevik er að gera varðandi Noreg.