Matvælaverð á Íslandi og í nágrannalöndunum

Mánudaginn 06. október 2003, kl. 15:14:30 (152)

2003-10-06 15:14:30# 130. lþ. 4.1 fundur 46#B matvælaverð á Íslandi og í nágrannalöndunum# (óundirbúin fsp.), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 130. lþ.

[15:14]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Vegna þessa síðasta er rétt að benda á að í gögnum sem nýlega voru kynnt kom fram að á fimm ára tímabili hefði nánast ekki nokkur vara lækkað jafnmikið hér á landi og landbúnaðarvörur, þ.e. framleiðsla á íslenskum landbúnaði. Ég held að það sé rétt að halda því til haga vegna þess að gjarnan eru menn að hnýta í landbúnaðinn, og stundum að ósekju.

Síðan er þetta með meðalverðið. Nú eru menn að slást og ætla að fara í utandagskrárumræðu á eftir vegna þess að það eru vandamál uppi sem tengjast innfluttu verkafólki, til að mynda frá Portúgal, Evrópsambandslandi þar sem matvælaverð er örugglega lægra en hér af ýmsum ástæðum. En þar eru líka launin miklu lægri en hér. Þess vegna er væntanlega verið að flytja þessa verkamenn hingað inn. Allt þetta þurfum við að hafa í huga því það er ekki allt sem sýnist þegar menn horfa á meðaltöl af þessu tagi.