Alþjóðlegt friðargæslulið Sameinuðu þjóðanna til Palestínu

Mánudaginn 06. október 2003, kl. 15:22:01 (157)

2003-10-06 15:22:01# 130. lþ. 4.1 fundur 47#B alþjóðlegt friðargæslulið Sameinuðu þjóðanna til Palestínu# (óundirbúin fsp.), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 130. lþ.

[15:22]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Hér heyrði Alþingi Íslendinga tóninn, sama tón og við heyrum frá Bush og Sharon. 27 ára stúlka, 27 ára lögfræðingur sem hafði misst bróður sinn fyrir hendi Ísraelsmanna, sprengir sjálfa sig í loft upp. Það er hryllilegt voðaverk og óhappaverk. En það er ekki hryðjuverk í þeim skilningi sem við erum að upplifa frá hendi Ísraelsmanna gegn Palestínumönnum. Hér er um að ræða unga manneskju, vitstola af örvæntingu.

En það er ekki þessi stúlka sem veldur því að ég staðnæmist nú í huganum í Palestínu. Það er hinn almenni borgari. Það eru foreldrarnir sem geta ekki séð börnum sínum fyrir heilsugæslu. Þau geta ekki sótt skóla, geta ekki stundað atvinnu. Fólkið býr á svæðum sem eru ekkert venjulegt ríki heldur gettó umlukin rafmagnsgirðingum og apartheid-múrum. Og þetta eru viðbrögðin þegar gerð er sprengjuárás á búðir flóttamanna. Hann lýsir áhyggjum, hæstv. utanrrh. Íslands. (Forseti hringir.) Þetta er ömurlegur málflutningur.