Embætti prests á Bíldudal

Mánudaginn 06. október 2003, kl. 15:27:01 (161)

2003-10-06 15:27:01# 130. lþ. 4.1 fundur 48#B embætti prests á Bíldudal# (óundirbúin fsp.), GAK
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 130. lþ.

[15:27]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Á Bíldudal búa nú um 240 manns. Þeir voru fyrir ekki svo löngu síðan um 340. Hálft annað hundrað íbúanna hefur sent frá sér undirskriftalista þar sem þess er óskað að skipað verði í stöðu prestsins á Bíldudal. Það þrengir nú mjög að íbúum á Bíldudal vegna atvinnuástands og það ekki í fyrsta sinn, því miður.

Í frv. til fjárlaga kom fram að óskað er heimildar til að selja prestsbústaðinn á Bíldudal. Því spyr ég hæstv. dóms- og kirkjumrh. hvort nú liggi þegar fyrir ákvörðun um að embætti prests á Bíldudal verði lagt niður og hvort beiðni íbúanna sé algjörlega tilgangslaus.