Sjókvíaeldi

Mánudaginn 06. október 2003, kl. 15:30:11 (165)

2003-10-06 15:30:11# 130. lþ. 4.1 fundur 49#B sjókvíaeldi# (óundirbúin fsp.), KolH
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 130. lþ.

[15:30]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Virðulegur forseti. Eins og fram hefur komið í fréttum hefur Veiðimálastofnun nú greint sjö laxa sem hafa veiðst upp á síðkastið í Selá, Hofsá og Breiðdalsá sem eldislaxa og að öllum líkindum eru þeir ættaðir úr hópi tæplega 3.000 laxa sem sluppu úr eldiskví í höfninni í Neskaupstað í ágúst síðastliðnum. Það er a.m.k. ljóst að einn þeirra þriggja eldislaxa sem veiðst hafa í Breiðdalsá var þannig merktur að óyggjandi er að hann er kominn úr sláturkvínni í Neskaupstað.

Nú er það vitað að hluti þeirra laxa sem þarna sluppu var kynþroska og það er auðvitað hann sem er að koma upp í árnar núna en sá hluti stroklaxanna sem ekki var orðinn kynþroska þegar slysið varð villist trúlega í hafinu þar til líður á næsta sumar og leitar þá upp í árnar, að öllum líkindum á Austurlandi þó vitað sé að eldislax sem á hvergi heima geti leitað upp í ár nánast hvar sem er.

Eftir langa og stranga baráttu þeirra sem talað hafa fyrir verndun náttúrulegra laxastofna virðist nú allt það versta sem menn óttuðust þegar farið var að heimila eldi á laxi af erlendum stofni, vera að ganga eftir. Sýnist manni nú að betra hefði verið fyrir stjórnvöld að hlusta á kröfuna um að hægar yrði farið í sakirnar, einnig að við stæðum betur að vígi ef hlustað hefði verið á varnaðarorð þeirra sem á sínum tíma vildu að þauleldi á laxi lyti lögum um mat á umhverfisáhrifum. Slysið í Norðfirði, sem sumir vilja kalla versta og stærsta umhverfisslys í laxeldi hér á landi til þessa, er staðreynd og áhrif þess eiga eftir að verða kortlögð á næstu árum. En þrátt fyrir það sem við getum sagt til um með vöktun eftir á, kemur ekkert í staðinn fyrir að sýna fyrirhyggju. Spurning mín til ráðherrans er þessi:

Er að vænta einhverra viðbragða af hálfu ráðherrans, t.d. varðandi hertar reglur um slátrun eldisfiska? Hefur ráðherrann t.d. í hyggju að banna slátrun nema í kvíum á landi eða eru einhverjar aðgerðir í undirbúningi af hálfu ráðuneytisins til að koma megi í veg fyrir strok laxa úr eldiskvíum?