Kjör og aðbúnaður starfsmanna við Kárahnjúka

Mánudaginn 06. október 2003, kl. 15:51:41 (174)

2003-10-06 15:51:41# 130. lþ. 4.96 fundur 56#B kjör og aðbúnaður starfsmanna við Kárahnjúka# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 130. lþ.

[15:51]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Menn byrja gjarnan á því í ræðum sínum um þessi mál að taka fram, eins og málshefjandi nú og hæstv. ráðherra, hversu miklir stuðningsmenn þeir séu þessa verkefnis. Síðan er gjarnan bætt við að þetta sé stærsta framkvæmd Íslandssögunnar. Einmitt þess vegna og í því ljósi er ástæða til að spyrja: Hvernig í ósköpunum getur það gerst að verkið fari af stað með þeim hætti sem raun ber vitni, að nánast allt er brotið sem hægt er að brjóta?

Auðvitað var tónninn í hæstv. félmrh. sami afsökunarlinkindartónninn og verið hefur í umfjöllun stjórnvalda, sérstaklega ráðherra Framsfl., um þessi mál alla tíð og er enn, þó að fáir gangi nú jafnlangt og hæstv. utanrrh. sem eins og kunnugt er lýtur fram og þakkar fyrirtækinu.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra: Hversu mörg lög og ákvæði og hve lengi þarf þetta fyrirtæki að brjóta til þess að mönnum detti í hug að reka það? Er ekki alveg augljóst mál að ef í hlut ætti minni háttar verktaki í einhverju venjulegu verki hér þá væri hann löngu farinn heim, því að svona framkomu láta menn ekki bjóða sér? Það er ekki eitt heldur nánast allt sem þarna hefur verið í ólestri, laun og launakjör, öryggismál, starfsréttindamál, fyrirtækið borgar ekki reikninga, það er meira að segja með réttindalausan rússneskan lækni til að senda menn heim ef þeir verða veikir, þ.e. ef ekki er hægt að láta þá vinna veika, fingurbrotna eða hvað það nú er. Og maður spyr: Hversu lengi á þetta að ganga svona? Mun fyrirtækið geta farið sínu fram í ljósi þess hversu pólitískt þetta verkefni er?

Ég vil einnig spyrja hæstv. félmrh.: Hafa menn þar á bæ kynnt sér framferði þessa verktaka, t.d. í Suður-Ameríku eða í Afríku? Hefur ráðherra kynnt sér framgöngu Impregilo í Lesoto, svo dæmi sé tekið?

Ég vil líka spyrja félmrh. hvort menn, að gefnu tilefni, hafi krafið Landsvirkjun upplýsinga um það: Hvað vissi Landsvirkjun um að tilboð Impregilo byggði á óraunhæfum forsendum hvað íslenskan launakostnað snerti? Það er ástæða til að fara ofan í saumana á því í ljósi yfirlýsingar stjórnarformanns Landsvirkjunar af þessu tilefni.