Kjör og aðbúnaður starfsmanna við Kárahnjúka

Mánudaginn 06. október 2003, kl. 15:56:06 (176)

2003-10-06 15:56:06# 130. lþ. 4.96 fundur 56#B kjör og aðbúnaður starfsmanna við Kárahnjúka# (umræður utan dagskrár), GAK
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 130. lþ.

[15:56]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Þessar vikurnar er gerð atlaga að kjörum og aðbúnaði sem launþegar á Íslandi og samtök þeirra hafa barist fyrir árum og áratugum saman að giltu um kjör þeirra. Um mitt sumar fóru að berast fréttir af ósætti íslenskra starfsmanna hjá Impregilo við Kárahnjúka. Á ýmsan aðbúnað starfsmanna hefur skort og benda íslenskir starfsmenn á fjölmörg atriði varðandi hreinlæti og mötuneytisaðstöðu.

Erlendir starfsmenn virðast samkvæmt fréttum búa við verstar aðstæður. Segjum nú sem svo að eitthvað af þeim vandamálum sem áður voru nefnd hafi verið byrjunarörðugleikar, en því miður virðist margt að þrátt fyrir kvartanir og kröfur verkalýðsfélaganna. Langalvarlegast er þó að mínu mati aðför fyrirtækisins að samningum við undirverktaka og eigin starfsmenn að greiða kaup sem ekki er eins og íslenskir kjarasamningar kveða á um.

Þetta fyrirkomulag að greiða erlendu fólki lág laun langt undir kjörum þeim sem eiga að gilda þekkist vel. Íslensk fyrirtæki hafa áratugum saman greitt laun á farskipum sínum undir hentafánafyrirkomulagi sem eru mun lægri en kjör fyrir sams konar störf eftir íslenskum kjarasamningum. Sjómannasamtökin, þar sem Sjómannafélag Reykjavíkur hefur verið í fararbroddi, hafa reynt að verjast slíkri aðför að íslenskum kjarasamningum. Því hefur verið haldið fram að um skipulagða fyrir fram ákveðna svikamyllu við Kárahnjúka væri að ræða þar sem mörg hundruð erlendra starfsmanna væru á launum sem gæfu 270--540 kr. á klukkustund. Ef stjórnvöld ætla ekki að standa vörð um það að hér á landi sé farið eftir íslenskum lögum og kjarasamningum þá hlýtur verkalýðshreyfingin að gera það. Og ef verkalýðshreyfingin neyðist til að grípa til örþrifaúrræðis eins og verkfalla þá hlýtur verkalýðshreyfingin að gera það.