Kjör og aðbúnaður starfsmanna við Kárahnjúka

Mánudaginn 06. október 2003, kl. 16:07:19 (181)

2003-10-06 16:07:19# 130. lþ. 4.96 fundur 56#B kjör og aðbúnaður starfsmanna við Kárahnjúka# (umræður utan dagskrár), HHj
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 130. lþ.

[16:07]

Helgi Hjörvar:

Virðulegur forseti. Ég veit ekki alveg hvort maður á að þora að taka til máls í þessari umræðu eftir yfirlýsingar hæstv. tilvonandi forsrh., Halldórs Ásgrímssonar, um að ekki megi gagnrýna það fyrirtæki sem hér er til umræðu. Þau ummæli eru auðvitað sama öfgamarki brennd og yfirlýsingar ýmissa virkjunarandstæðinga um að Landsvirkjun beri ábyrgð á launakjörum starfsmanna ítalska verktakafyrirtækisins Impregilo. Hvorugt er rétt og þetta mál, forseti, snýst ekki um að vera með eða á móti virkjun. Það snýst um mannréttindi og launakjör á Íslandi.

Ítalska fyrirtækið Impregilo er í þeirri lykilastöðu að það veit að í stærstu framkvæmd Íslandssögunnar er það eini bjóðandinn sem treysti sér til að vinna verkið á því verði sem hægt er að framkvæma það á. Þeir vita að verksamningnum verður aldrei sagt upp. Þess vegna munu þeir ganga mjög langt í að láta reyna á öll grá svæði í löggjöf og eftirliti á Íslandi. Það hafa þeir gert.

Þeir hafa raunar verið svo ósvífnir að taka þátt í þeim blekkingarleik að segja Íslendingum að þeir vilji gjarnan fá sem flesta Íslendinga til starfa upp á Kárahnjúka. Í aðdraganda kosninga auglýstu þeir eftir íslenskum starfsmönnum og fengu nærri því eitt þúsund umsóknir. Af þeim nærri eitt þúsund umsóknum réðu þeir níutíu. Þeir réðu níutíu. Þetta fyrirtæki mat íslenska kjarasamninga svo og að íslensk lög og eftirlit framkvæmdarvaldsins væri svo lélegt að það borgaði sig fyrir þá að hafna hundruðum vinnufúsra íslenskra handa en flytja þess í stað inn erlent vinnuafl, ekki bara af Evrópska efnahagssvæðinu, heldur líka utan þess. Þeir vissu að þeir mundu fá atvinnuleyfi fyrir þetta vinnuafl þó ófaglært væri, sem sérfræðinga í uppsetningu vinnubúða, sérfræðinga í ræstingum eða í rússneskum lækningum. Hvað veit ég?

Það á að vera áhyggjuefni í þessum sal ef íslenskir kjarasamningar, lög og eftirlit eru með þeim hætti að atvinnurekendur, íslenskir eða erlendir, telja sér betur borgið með því að flytja hingað ódýrt vinnuafl frá útlöndum en að ráða vinnufúsar íslenskar hendur til starfa. Um það snýst þetta mál ekki síst. Þar verður löggjafinn að taka sig á og setja lög um starfsmannaleigur og lög sem tryggja betur réttindi verkafólks á Íslandi þannig að það borgi sig alltaf að ráða atvinnulausan Íslending fremur en Pólverja eða rússneska lækna.