Aldarafmæli heimastjórnar

Mánudaginn 06. október 2003, kl. 16:16:56 (185)

2003-10-06 16:16:56# 130. lþ. 4.4 fundur 3. mál: #A aldarafmæli heimastjórnar# þál., Flm. ÖS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 130. lþ.

[16:16]

Flm. (Össur Skarphéðinsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um breytingar á stjórnarskrá í tilefni af því að á næsta ári er aldarafmæli heimastjórnar. Þá voru liðin 60 ár frá því að Íslendingar stofnuðu lýðveldi á Þingvöllum árið 1944 og minn stjórnmálaflokkur, Samfylkingin, telur við hæfi að Alþingi minnist þessara sögulegu tímamóta með því að sameinast um endurskoðun á stjórnarskránni. Reynslan hefur sýnt að það hefur verið giska erfitt að ná samstöðu um endurbætur á stjórnarskránni á lýðveldistímanum. Allar breytingar á þeim tíma, með einni undantekningu, hafa í reynd varðað breytta kjördæmaskipan. Þó hafa margar stjórnarskrárnefndir verið skipaðar og margar setið og unnið merkt starf. Til að mynda skilaði stjórnarskrárnefndin, sem sat að störfum upp úr 1980, ákaflega viðamikilli skýrslu árið 1984. Þar var m.a. fjallað með merkum hætti, svo braut í blað, um grundvallaratriði eins og mannréttindi. Hluti af þeim tillögum var lagður til grundvallar þegar Alþingi samþykkti árið 1995, í tilefni af hálfrar aldar afmæli lýðveldisins, merkar umbætur á stjórnarskránni. Við erum enn þá töluvert mörg sem sitjum í þessum sal og tókum þátt í þeirri breytingu. Ég minnist þess, herra forseti, að ég sat þá ungur umhvrh. á hátíðarbekk á Þingvöllum þegar Alþingi færði þjóðinni þær umbreytingar í afmælisgjöf. Ég er líka stoltur af að hafa tekið þátt í því.

Þær tillögur sem við leggjum hér fram, gervallur þingflokkur jafnaðarmanna, eru í nokkrum liðum, en grundvallartillagan er sú að Alþingi setji á stofn nefnd 9 manna með fulltrúum allra þingflokka og verkefni hennar er að endurskoða stjórnarskrána. Þær tillögur sem við leggjum til að verði höfuðverkefni nefndarinnar eru í fyrsta lagi að gera tillögur um það hvernig tryggja megi í stjórnarskrá að þjóðin eigi saman náttúruauðlindir, svo sem lifandi auðlindir í hafi eða aðrar sem kunna að finnast á eða í hafsbotni, auðlindir í fallvötnum, auðlindir í fjarskiptarásum í lofti, þjóðlendum og öðrum náttúruauðlindum sem kunna að finnast eða verða þróaðar og sem enginn á og við getum litið á sem sameiginlega arfleifð þjóðarinnar.

Í öðru lagi gerum við tillögu um það að nefndin vinni tillögur um svipaðar breytingar og grannþjóðir okkar á Norðurlöndunum hafa gert í stjórnarskrám sínum svo að hægt sé að framselja ríkisvald til alþjóðastofnana og stofnana sem vinna að friði og frelsi í viðskiptum milli þjóða.

Þriðja megintillagan sem við viljum að nefndin sinni er að gera tillögur um að allt landið verði eitt kjördæmi. Þetta er ein af þeim hugmyndum sem jafnaðarmenn hafa barist fyrir áratugum saman og reyndar smám saman fengið hljómgrunn. Ég vek eftirtekt á því, herra forseti, að annar stjórnmálaflokkur en Samfylkingin hefur á síðustu árum tekið þetta upp og barist fyrir því að landið verði eitt kjördæmi og á sínum tíma mátti líka finna öfluga menn innan Framsfl., annars stjórnarflokksins, sem töldu það verða farsælt fyrir þjóðina.

Í fjórða lagi gerum við það að tillögu okkar að stjórnarskrárnefndin hin nýja leiði í stjórnarskrá ákvæði um að tiltekinn hluti þjóðarinnar geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um mál. Þetta er eitt af því sem Samfylkingin og forverar hennar hafa barist mjög lengi fyrir og síðasta áratug hefur hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir fyrst og fremst haft forgöngu að þessu. Hluti af þessu tiltekna máli sem tengist þjóðaratkvæðagreiðslu er að nefndin skoði í vinnu sinni þá möguleika sem hafa opnast með tilkomu nýrrar tækni svo hugsanlega sé hægt að taka upp beint og milliliðalaust lýðræði í framtíðinni. Þarna er um að ræða þátt sem skilur algerlega á milli Samfylkingarinnar og hins stærsta stjórnmálaflokksins, Sjálfstfl., en það er að frumkvæði hæstv. forseta sem nú situr, Halldórs Blöndals, að landsfundur þess ágæta stjórnmálaflokks samþykkti sérstaka tillögu gegn því að nýrri tækni yrði beitt til þess að taka upp milliliðalaust lýðræði. Við teljum hins vegar, herra forseti, að þetta sé eitt af því sem framtíðin hlýtur að færa með sér og við erum þeirrar skoðunar að það hljóti að skoðast hvort ekki sé líka rétt, þó ekki verði það sett í stjórnarskrá, að taka upp ákvæði í lög sem beinlínis valda því að á sveitarstjórnarstigi verði líka hægt að beita allsherjaratkvæðagreiðslum, hugsanlega í krafti nýrrar tækni, til þess að ráða til lykta erfiðum málum. Ég vísa til hins ágæta frumkvæðis Reykjavíkurlistans varðandi flugvöll Reykjavíkur í því efni.

Herra forseti. Nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar munu taka þátt í þessari umræðu og reifa ýmsa þætti sem eru uppistaðan í hinni eiginlegu tillgr. Fyrsta atriðið sem ég nefndi og varðaði stjórnarskrárákvæði um sameign náttúruauðlinda er eitt af því sem við jafnaðarmenn höfum barist ákaflega lengi fyrir. Þetta hefur verið rauður þráður í hugmyndafræði jafnaðarmanna hvar í flokki sem þeir hafa staðið. Ýmsir þingmenn sem áttu sæti í flokkum sem stóðu að stofnun Samfylkingarinnar hófu fyrir hartnær 35 árum að flytja frumvörp um sameiginlegt eignarhald þjóðarinnar á djúphita, orku fallvatna og löndum og hlunnindum sem ekki falla beinlínis undir einkaeignarrétt. Í sama anda hefur Samfylkingin, frá stofnun sinni árið 2000, barist fyrir því að ákvæði um sameign þjóðarinnar á auðlindum verði tekið upp í stjórnarskránni.

Herra forseti. Ég sat á sínum tíma í ríkisstjórn undir forsæti Davíðs Oddssonar. Það var fyrsta ríkisstjórn hæstv. forsrh. og eitt af þeim þingmálum sem hún lagði fram var einmitt frumvarp til stjórnarskipunarlaga um að breyta stjórnarskránni. Sú breyting sem hæstv. forsrh. lagði þá fram fól í sér að í stjórnarskrá yrði tekið upp ákvæði sem tryggði hið svokallaða þjóðarsameignarákvæði 1. gr. íslensku fiskveiðistjórnarlaganna. Í því stjórnarskipunarlagafrv. var sem sagt lagt til að stjórnarskrá yrði breytt með þeim hætti að þar væri fortakslaust kveðið á um það að íslenska þjóðin væri sameiginlegur eigandi að þeim auðlindum sem búa í hafinu. Ég lít svo á, herra forseti, að það hljóti að vera vísir að góðri samstöðu um þetta atriði. Reyndar vil ég hrósa hæstv. ríkisstjórn fyrir það að hún hefur í stefnuyfirlýsingu sinni lýst yfir að hún muni beita sér fyrir að það verði tekið upp ákvæði um að auðlindir hafsins séu sameign þjóðarinnar. Það er mjög gott spor í áttina. Skilningur okkar á auðlindarhugtakinu hefur hins vegar breyst og þróast og við í Samfylkingunni erum þeirrar skoðunar að sameignarákvæði þurfi að taka til fleiri þátta en aðeins lifandi auðlinda í hafinu. Stjórnarskráin þarf að taka af allan vafa um að náttúruauðlindir, sem enginn á og má færa rök að því að séu partur af sameiginlegum arfi þjóðarinnar, séu ótvíræð sameign hennar. Ég hef áður talið upp hvaða þætti við eigum þar við og teljum þess vegna ákaflega vel til fundið að gera þetta sem meginpart af endurbótum á stjórnarskránni í tilefni af 100 ára afmæli heimastjórnarinnar.

Mig langar, herra forseti, ef einhver sem ber ábyrgð á núverandi ríkisstjórn svífur á mig og getur svarað, að inna hv. stjórnarliða eftir því hverju það sætir að það er ekkert sem fannst í málaskrá ríkisstjórnarinnar sem hér var lögð fram með ræðu hæstv. forsrh. né heldur var stakt orð að finna í ræðunni sjálfri um það að á kjörtímabilinu ætti að taka upp þetta sameignarákvæði. Hvað veldur því að þessi skýlausa yfirlýsing í stefnuyfirlýsingu flokkanna tveggja sem að ríkisstjórninni standa brýst ekki fram með einhverjum hætti í stefnuræðu forsrh.? Þar er þó verið að lýsa hinum merkustu þáttum sem á að hrinda í framkvæmd á komandi kjörtímabili. (JóhS: Hvar er forsrh.?) Sennilega að stýra landinu, hv. þm.

Annað atriði sem ég vil ræða sérstaklega í þessari fyrstu ræðu minni tengist sambandi ríkis og kirkju. Þeir sem lesa tillögu okkar Samfylkingarmanna og greinargerðina sem henni fylgir taka eftir því að þar er ekki kveðið fast að orði. Það er í rauninni mýksti hluti tillögugerðarinnar að því leyti að þar er einungis talað um að það eigi að skoða hvort tímabært sé, í ljósi þjóðfélagsbreytinga, að endurskoða samband ríkis og kirkju. Þar sem þeim hluta greinargerðarinnar sem fjallar um þennan þátt tillögunnar sleppir er tekið sérstaklega fram að þetta þurfi að gerast í sátt við kirkjuna.

Herra forseti. Ég er alinn upp í anda hinnar evangelísk-lútersku kirkju og nýt meira að segja þeirra forréttinda, einn þingmanna hér, að hafa verið alinn upp á heimavistarskóla um þriggja ára skeið og tekið mitt landspróf þar undir ströngum kristilegum aga Sjöunda dags aðventista. Það er kannski þess vegna sem ég lít stundum svo á, eftir að prestar hurfu úr okkar hópi í þingsölum, að ég sé a.m.k. með biblíuföstustu þingmönnum sem hér sitja. Ég kann vel við þetta uppeldi og það hefur mótað mig að öllu leyti og það mótar afstöðu mína til lífsins. Ég er trúaður maður og eftir því sem ég eldist þá sæki ég æ meiri styrk í þá trú og það er einmitt frá þeim sjónarhóli sem ég leyfi mér að leggja fram þessa mildilega orðuðu tillögu. Kirkjuskipanin er bundin í stjórnarskránni. Það segir í 1. mgr. 62. gr. stjórnarskrárinnar að þjóðkirkjan skuli vera hin evangelísk-lúterska kirkja og þar segir, með leyfi forseta: ,,skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda.`` Þó er það svo að í næstu greinum stjórnarskrárinnar er kveðið á um algert trúfrelsi. Þar er kveðið á um að allir menn skuli jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til trúar. Ég er þeirrar skoðunar að þetta ákvæði, trúfrelsisákvæðið, hljóti að teljast það mikilvægasta af greinum stjórnarskrárinnar sem fjallar um trú og kirkju. Þó að ákvæðið um stuðning og vernd ríkisvaldsins sé hvergi skilgreint þannig að það sé ljóst með hvaða hætti ríkisvaldið eigi að uppfylla skyldurnar, þá er eigi að síður kirkjan og hin evangelísk-lúterska kirkja sett númer eitt í því ákvæði sem ég vitnaði í. Ég tel að það hafi gefist mjög vel. Það er enginn vafi á því að í gegnum aldirnar hafa þau kristilegu gildi sem fylgdu þessari kirkju mótað okkur. Ég gæti fært sterk rök að því að samúð og umhyggja hafi í rauninni verið lykill að því að íslensk þjóð komst, af eigin rammleik, í gegnum þær kröppu miðaldir þar sem kreppti svo svakalega að þjóðinni eins og skráð er í okkar annála. Ég held að þjóðin hafi lifað af öðrum þræði vegna þess að hún lifði í anda þessara kristilegu gilda um samhjálpina.

Þessi gildi, herra forseti, eiga fyllilega rétt á sér áfram og þau móta samfélag okkar. Ég sé ekkert athugavert við það að þeirra sjáist stað með einhverjum hætti í þeim ramma sem samfélag okkar hvílir á. En trúfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar verður að virða. Samfélag okkar er breytt. Landamærin dvína og dofna og merking þeirra er minni heldur en áður. Við erum orðin hluti af stórri alþjóðlegri heild. Íslendingar fara víða. Við tökum á móti gestum sem koma víða að og auðga menningu okkar með margvíslegum hætti. En margt af þessu fólki sem ber uppi það sem í dag má skilgreina sem fjölmenningarlegt samfélag hefur aðra trú en við. Og þetta fólk verður að finna nákvæmlega sama skjól í stjórnarskránni og við hin sem erum evangelísk-lúterskrar trúar.

Þess vegna legg ég það fram og þm. Samf. hvort ekki sé rétt, í ljósi þeirra röksemda sem ég hef hér flutt, að skoða hvort ekki eigi að athuga betur samband ríkis og kirkju eins og það er skilgreint í stjórnarskránni. Ég hlýt að draga það inn í þessa umræðu að nú þegar er á hreyfingu ákveðið ferli aðskilnaðar milli ríkis og kirkju. Því hefur biskup Íslands, herra Karl Sigurbjörnsson, lýst með þeim hætti að um sé að ræða skilnað að borði og sæng. Hann hefur spurt hvort kirkjan þurfi að standa andspænis þeirri spurningu innan tíðar hvort ekki eigi að breyta því í lögskilnað. Það er hin sama spurning og ég legg hér fyrir, þó ekki með jafn djarftækum hætti og biskupinn gerði í boðskap sínum til kirkjuþingsins í fyrra.