Aldarafmæli heimastjórnar

Mánudaginn 06. október 2003, kl. 16:33:06 (186)

2003-10-06 16:33:06# 130. lþ. 4.4 fundur 3. mál: #A aldarafmæli heimastjórnar# þál., JBjarn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 130. lþ.

[16:33]

Jón Bjarnason (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er fyrsta þingmál Samf. sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur mælt fyrir á þessu þingi og þar er dregið fram væntanlega mikilvægi þeirra mála sem hv. þm. telur að þingheimur þurfi að taka á. Þar er þá fyrst nefnt til aðskilnaður ríkis og kirkju. Ég tel að mörg önnur brýnni mál þurfi íslenskt samfélag að takast á við heldur en að við þurfum að setja þetta sem aðalmál á oddinn. Það hefur svo sem ekkert að segja um kirkjurækni okkar eða trú. Engu að síður hefur kirkjan og sú skipan á milli hins andlega og veraldlega valds verið með þessum hætti um aldir og er gríðarlega sterkur hluti af samfélagi okkar og menningu, allri okkar samfélagsuppbyggingu.

Þess vegna vil ég bara spyrja hv. þm. Össur Skarphéðinsson: Telur hv. þm. þetta virkilega vera brýnasta viðfangsefnið nú í upphafi þings, að berjast fyrir aðskilnaði ríkis og kirkju?