Aldarafmæli heimastjórnar

Mánudaginn 06. október 2003, kl. 16:42:58 (190)

2003-10-06 16:42:58# 130. lþ. 4.4 fundur 3. mál: #A aldarafmæli heimastjórnar# þál., BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 130. lþ.

[16:42]

Björgvin G. Sigurðsson:

Virðulegi forseti. Hér er um merkilegt mál að ræða og vel við hæfi að fyrsta þingmál nýhafins kjörtímabils skuli vera till. til þál. um breytingar á stjórnarskrá í tilefni af aldarafmæli heimastjórnar. Til að undirstrika mikilvægi tillögunnar erum við öll flm. hennar, þingmenn jafnaðarmanna, öll 20 að tölu, og flytjum hana ásamt formanni flokksins, hv. alþm. Össuri Skarphéðinssyni, sem hér mælti fyrir tillögunni en komst að vísu ekki nema inn í hana tæpa miðja vegna þess hve viðamikil og ítarleg greinargerðin við tillöguna er.

Líkt og segir í greinargerðinni áttu sér stað merkar breytingar á stjórnarskránni árið 1995 sem fólust þá sérstaklega í mjög róttækum breytingum á mannréttindakafla okkar ágætu stjórnarskrár og var hann færður þá til nútímaviðhorfs. Með tillögu hv. alþm. Össurar Skarphéðinssonar má segja að til séu lagðar róttækar breytingar á lýðræðiskafla stjórnarskrárinnar. Með tillögu þessari er hann færður til nútímahorfs og gerðar þar mikilvægar brtt. sem lúta einnig að mannréttindunum. Eins og segir í tillögunni, með leyfi forseta:

,,Á mannréttindum er ekki veittur afsláttur.``

Þess vegna leggjum við til að landið verði gert að einu kjördæmi og að allir landsmenn hafi jafnan atkvæðarétt. Á því er enginn afsláttur veittur samkvæmt stefnu okkar jafnaðarmanna í Samf.

[16:45]

Önnur merk lýðræðisbreytingartillaga sem lögð er til í tillögu okkar um breytingar á stjórnarskrá í tilefni af aldarafmæli heimastjórnar lýtur að beinu lýðræði og þjóðaratkvæðagreiðslum.

Með beinu og milliliðalausu lýðræði eigum við sérstaklega við rétt allra borgara á Íslandi til að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu og, eins og segir í d-lið tillögunnar, með leyfi forseta:

,,að leiða í stjórnarskrá ákvæði um að tiltekinn hluti landsmanna geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um mál og skoða í því efni möguleika á nýtingu nýrrar tækni til að auka lýðræðisleg áhrif almennings``.

Og það er kjarni málsins, virðulegi forseti, að tiltekinn hluti atkvæðisbærra borgara á Íslandi geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um eitthvert tiltekið mál, sérstaklega eftir því sem við færum fleiri verkefni til sveitarfélaganna og afl þeirra og atgervi verður meira og styrkara ár frá ári, ég tala ekki um hvernig það verður þegar við jafnaðarmenn komumst í ríkisstjórn og munum hefjast handa við að færa fleiri og máttugri verkefni til sveitarfélaganna, svo sem rekstur framhaldsskóla og löggæsluna o.fl. En það, virðulegi forseti, er efni í aðra messu og við ræðum það síðar.

Það er grundvallaratriði að um leið og við færum aukin verkefni til fólksins í landinu, til sveitarfélaganna, þá færum við einnig valdið til íbúanna í sveitarfélögunum og eflum og tryggjum íbúalýðræði og beint lýðræði með öllum þeim tiltæku ráðum sem við höfum. Þau eru fjöldamörg, virðulegi forseti, núna á tækniöld. En eftir að tæknibyltingin gekk í garð gefast okkur, svo vægt sé til orða tekið, gríðarleg tækifæri til að færa milliliðalaust lýðræði í framkvæmd á ódýran og mjög markvissan hátt, sem er einnig, virðulegi forseti, ekki því marki brenndur að við þurfum að þvæla fólki á kjörstað í hvert einasta sinn sem kjósa þarf sem getur verið galli ef um er að ræða tíðar þjóðaratkvæðagreiðslur eða sveitarfélagaatkvæðagreiðslur eftir efnum og ástæðum í tiltekinn tíma. Reynslan frá Sviss sýnir að eftir því sem atkvæðagreiðslurnar eru tíðari minnkar kjörsóknin. Við viljum auðvitað vinna gegn því og koma í veg fyrir einhvers konar lýðræðisþreytu. Þess vegna höfum við jafnaðarmenn, t.d. í þessari tillögu sem hv. 1. þm. Reykv. n. mælti hérna fyrir áðan, sagt að við eigum að taka tæknina í okkar hendur og nýta okkur hana við að framkvæma beint og milliliðalaust lýðræði. Tölvueign landsmanna er náttúrlega á heimsmælikvarða. Menntunin er góð og almennt aðgengi að upplýsingum og tækni o.s.frv. er á margan hátt framúrskarandi á Íslandi þannig að við eigum að nota okkur það við að koma þessum róttæku breytingum í framkvæmd. Við höfum lagt þetta til áður og oftar í öðrum tillögum.

Virðulegi forseti. Í niðurlagi greinargerðar tillögu okkar til þál. um breytingar á stjórnarskrá, þar sem flutningsmaður, má segja, að rammi inn kjarnann í þjóðaratkvæðaþætti tillögunnar, þætti sem verður eflaust komið að hér síðar í umræðunni og oftar, meira og seinna þegar tillagan verður til umfjöllunar, segir, með leyfi forseta:

,,Vísir að beinu lýðræði verður því aðeins tryggður að almenningur hafi ótvíræðan, sjálfstæðan rétt til að krefjast þjóðaratkvæðis. Það verður tæpast nema stjórnarskráin mæli fyrir um að tiltekinn fjöldi kosningarbærra borgara geti krafist þjóðaratkvæðis um ákveðin mál. Því er mikilvægt að nefnd til endurskoðunar á stjórnarskrá Íslands verði falið að útfæra tillögu um hvernig slíkum kosningum skuli háttað, þar á meðal hve marga kosningarbæra menn þarf til að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu. Þann rétt þarf síðan að binda í stjórnarskrá landsins.``

Eins og ég gat um áðan, virðulegi forseti, þarf sú nefnd líka að taka til greina og skoðunar hve marga íbúa tiltekins sveitarfélags þarf og af hvaða stærðargráðu þau þurfi að vera til að íbúar þeirra geti krafist lýðræðislegrar meðferðar um tiltekin mál, hvort heldur það er beinnar atkvæðagreiðslu um ákveðið mál eða hvort um er að ræða að krefjast íbúaþinga um ákveðin mál, en eins og við höfum séð, virðulegi forseti, er þeim ákaflega mismikið beitt í sveitarfélögum landsins. Til mikillar fyrirmyndar er t.d. íbúaþing sem má segja að sé nýhafið í sveitarfélaginu Árborg, þar sem Samfylkingin er í meiri hluta með Framsfl., en aukið íbúalýðræði var eitt af meginmálum okkar í kosningabaráttunni þar til sveitarstjórna í fyrravor. Íbúaþingið fer fram á þremur stöðum í sveitarfélaginu, öllum þremur þéttbýliskjörnunum. Þar eru stærstu málin sem þar eru uppi núna tekin til umræðu, þ.e. skipulagsmálin, og þau rædd af íbúunum sjálfum en ekki bara sveitarstjórninni eða embættismönnum viðkomandi sveitarfélags. Ég gæti nefnt nokkur önnur sveitarfélög sem hafa tekið hið beina lýðræði í sína þágu, t.d. Reykjavík, Garðabæ, Hveragerði og nokkur önnur. En þetta þarf að tryggja, að íbúarnir sjálfir geti krafist slíkrar meðferðar á einstökum málum, þ.e. að ekki þurfi sveitarstjórnarmennina til í hvert sinn til að kalla til íbúaþinganna heldur geti ákveðinn fjöldi þeirra farið fram á þau. Ég kem að því betur síðar, virðulegi forseti.