Aldarafmæli heimastjórnar

Mánudaginn 06. október 2003, kl. 17:48:15 (198)

2003-10-06 17:48:15# 130. lþ. 4.4 fundur 3. mál: #A aldarafmæli heimastjórnar# þál., PHB
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 130. lþ.

[17:48]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Við ræðum hér till. til þál. um breytingar á stjórnarskrá í tilefni af aldarafmæli heimastjórnar. Í þessari tillögu er tekið á mörgum mjög stórum málum og það er svo sem ágætt að ræða þau.

Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir því að það eigi að tryggja í stjórnarskrá sameign þjóðarinnar á náttúruauðlindum. Þá þurfa menn náttúrlega að átta sig á því hvað er sameign, hvað þýðir ,,sameign``? Menn átta sig yfirleitt á því hvað ,,eign`` þýðir en hvað þýðir sameign? Og hvað er eiginlega þjóð? Menn þurfa líka að átta sig á því. Sums staðar höfum við eitt ríki og tvær, þrjár þjóðir. Á öðrum stöðum höfum við tvö, þrjú ríki og eina þjóð. Menn þyrftu sem sagt að átta sig á því hvað þjóð er. Eru t.d. menn með íslenskan ríkisborgararétt sem hafa búið alla sína ævi í útlöndum hluti af íslenskri þjóð? Eða eru t.d. Pólverjar sem hafa búið á Vestfjörðum í eitt ár hluti af íslenskri þjóð?

Nokkrar spurningar vakna við þetta. Og svo er náttúrlega stærsta spurningin: Hvað er sameign? Það stendur í 1. gr. laganna um stjórn fiskveiða að fiskstofnarnir séu sameign þjóðarinnar. Það virðist ekki hafa breytt neinu um það hvernig hagað er stjórn á þessum fiskstofnum.

Í öðru lagi er gert ráð fyrir því, virðulegi forseti, að gera tillögur um breytingar á stjórnarskránni þannig að hægt sé að ,,framselja ríkisvald til alþjóðastofnana og samtaka sem vinna að friði og frelsi í viðskiptum milli þjóða``. Og þarna tala flm. fjálglega um aðild að Evrópusambandinu. Í því sambandi finnst mér nauðsynlegt að menn átti sig á því hvað Evrópusambandið er, hvort það sé lauslegt samband sjálfstæðra ríkja eða hvort það sé að þróast yfir í það að verða eitt ríki. Mér sýnist allt benda til þess að Evrópusambandið sé að þróast í það að verða eitt ríki. Og þá erum við ekki lengur að tala um aðild að Evrópusambandinu, heldur að Evrópuríkinu. Og ég er ekkert viss um að Íslendingar almennt séu ginnkeyptir fyrir því að afsala sér frelsi þjóðarinnar og fullveldi til einhvers annars ríkis þar sem við yrðum bara pínulítið hérað á rönd þess ríkis, úti við ystu höf.

Ég hef þá skoðun að reynslan hafi kennt okkur Íslendingum að eftir að við fengum fullveldi og frelsi hafi allt gengið hér á hinn betri veg, þegar við losnuðum undan erlendu valdi sem stýrði þjóðinni einhvers staðar sunnan úr Evrópu. Ég hef miklar efasemdir um að slíkt yrði gert, að ríkisvaldið yrði framselt til alþjóðastofnana í stjórnarskrá, nema menn hefðu á hreinu að slíkt gæti ekki gerst, að það þýddi ekki í rauninni framsal og afsal á fullveldi.

Svo er hitt, að gera landið að einu kjördæmi, virðulegur forseti. Þar virðast menn vera búnir að gleyma því sem var markmiðið með síðustu kjördæmabreytingu sem fólst í því að finna milliveg milli þess að hafa einmenningskjördæmi, þar sem einstaklingurinn gildir að mestu en stefnan, þ.e. flokkarnir, skipta litlu máli, og þess að hafa landið eitt kjördæmi þar sem flokkarnir skipta öllu en einstaklingarnir mjög litlu máli. Á þessu fundu menn ákveðið meðalhóf með því að búa til þessi jafnstóru kjördæmi sem við búum við í dag, með þeim furðulegu afleiðingum að Reykjavík var skipt í tvennt og eitt kjördæmið nær frá Suðausturlandi og alveg til Eyjafjarðar.

Það sem menn gætu hugsanlega tekið upp er þýska kerfið þar sem menn kjósa annars vegar einstaklinga og hins vegar flokka. Það væri hægt að kjósa t.d. ákveðinn frambjóðanda og svo annan flokk. En þá þýðir það að fjöldi þingmanna er breytilegur og skilst mér að geti munað allt að 100 þingmönnum á þýska þinginu, jafnvel meira.

Svo er talað um þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég er í sjálfu sér hlynntur henni en það er mikill vandi við að taka hana upp. Sum mál eru það flókin að menn þurfa að liggja yfir þeim í margar vikur til að komast til botns í þeim eins og við þekkjum í þingnefndum þingsins. Þess vegna þyrftu menn að hafa mjög á hreinu hvaða mál ætti t.d. að bera undir þjóðaratkvæði. Til dæmis þetta framsal sem ég nefndi áðan, ríkisvalds til alþjóðastofnana, er á hreinu hvað átt er við og hvaða afleiðingar það getur haft? Það er nefnilega mjög erfitt að upplýsa allan almenning í þeim sama mæli og þingmenn eru til dæmis upplýstir í þingnefndum.

Svo á að kanna samband ríkis og kirkju. Ég hef alltaf haft efasemdir um þetta hjónaband ríkis og kirkju. Ég held að kirkjan sérstaklega líði fyrir það, hún væri meira á tánum ef má orða það þannig ef hún þyrfti að standa sig á eigin vegum. Ég hef í sjálfu sér ekkert á móti því að skoða það að skilið verði þarna á milli, alveg sérstaklega með tilliti til þeirra borgara landsins sem ekki eru félagar í þjóðkirkjunni eða aðhyllast hana.

Svo er þarna grein sem er mjög opin um að auka réttindi og áhrif einstaklinga og kjósenda. Hver vill það ekki? Það reyndar stendur ekkert um hvernig eigi að gera það og ég sem sagt væri alveg til í að ræða hvernig það yrði gert.

En eins og ég sagði, virðulegi forseti, þá eru hér margar breytingar sem eru mjög stórar. Þetta eru stór mál, hvert um sig. Þess vegna þótti mér við hæfi að taka til máls í þessu máli.