Aldarafmæli heimastjórnar

Mánudaginn 06. október 2003, kl. 17:57:10 (200)

2003-10-06 17:57:10# 130. lþ. 4.4 fundur 3. mál: #A aldarafmæli heimastjórnar# þál., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 130. lþ.

[17:57]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég tel einmitt að í gegnum EES náum við þeim áhrifum og því hagræði sem felst í því sem sá samningur veitir. Allt umfram það tel ég vera af hinu illa og skaðlegt. Þeir sem hafa þá trú að Ísland sem hérað í ríkinu Evrópusambandið hafi áhrif skulu bara ímynda sér hvaða áhrif Grímsey hefur á landsstjórnina á Íslandi. Hlutföllin eru mjög svipuð. Meira að segja staðsetningin er svipuð. Hversu oft veltir þetta háa Alþingi fyrir sér vandamálum Grímseyinga? Það yrði með nákvæmlega sama hætti sem við hefðum áhrif í Evrópusambandinu og að sjálfsögðu eru það stóru þjóðirnar þar sem munu alfarið stjórna ferðinni. Enda er kominn vísir að her, það er kominn vísir að stjórnarskrá sem á að undirstrika völd þessara fólksflestu þjóða og það er kominn vísir að nýrri mynt sem er búið að taka upp í mörgum ríkjum. Það er sem sagt mjög hratt að myndast ríki. Og ef Íslendingar yrðu spurðir að því almennt hvort þeir vildu afsala sér fullveldinu og ganga sem hérað inn í eitthvert ríki í Evrópu er ég hræddur um að svörin yrðu töluvert önnur en þegar spurt er hvort menn vilji ganga í Evrópusambandið sem þá er gefið í skyn að sé lauslegt samband sjálfstæðra ríkja.