Aldarafmæli heimastjórnar

Mánudaginn 06. október 2003, kl. 18:00:42 (202)

2003-10-06 18:00:42# 130. lþ. 4.4 fundur 3. mál: #A aldarafmæli heimastjórnar# þál., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 130. lþ.

[18:00]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að aðild að Evrópusambandinu þýði framsal á fullveldi, vegna þess að það eru svo miklar breytingar í gangi, það eru svo margar nýjar hugmyndir, t.d. hugmyndin að nýrri stjórnarskrá fyrir Evrópusambandið sem gerir ráð fyrir því að neitunarvaldið hverfi. Í staðinn geta menn sagt sig úr því, en ef menn óttast að segja sig úr Evrópska efnahagssvæðinu hvað mundu menn þá segja um það að segja sig úr Evrópusambandinu eftir að hafa gengið þar inn?

Þetta neitunarvald sem menn eru að tala um er hægt og rólega að hverfa og mun hverfa til framtíðar. Þróunin er mjög hröð, ef litið er á þetta í sögulegu tilliti, ef maður hugsar í öldum en ekki í mánuðum þá er breytingin innan Evrópusambandsins mjög hröð og í þá veru að minnka áhrif litlu þjóðanna.

Ég fer því ekkert ofan af því að Evrópska efnahagssvæðið er það lengsta sem við getum gengið, og ef menn hafa þá skoðun að Ísland sé of veikt efnahagslega eða menningarlega til þess að standa á eigin fótum, hvað halda menn þá að Jón Sigurðsson hafi hugsað á sínum tíma þegar Ísland var enn þá veikara, bæði efnahagslega og menningarlega? Samt taldi hann það geta staðið á eigin fótum. (Gripið fram í: Jón hefði viljað ganga í Evrópusambandið.) Það er nú ágætt að leggja mönnum orð í munn sem eru löngu látnir og geta ekki svarað fyrir sig.

Ég vil benda á það að Alþfl. stóð á sínum tíma, þegar síðasta stjórnarskrárbreyting lá fyrir, á móti svona ákvæði eins og við erum hér að ræða um.