Aldarafmæli heimastjórnar

Mánudaginn 06. október 2003, kl. 18:02:44 (203)

2003-10-06 18:02:44# 130. lþ. 4.4 fundur 3. mál: #A aldarafmæli heimastjórnar# þál., Flm. ÖS
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 130. lþ.

[18:02]

Flm. (Össur Skarphéðinsson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið en ég vil þakka þeim sem tóku þátt í henni og ekki síst þeim hv. þingmönnum Guðjóni A. Kristjánssyni og Pétri H. Blöndal, sem tóku til máls og höfðu ákaflega margt bitastætt og merkilegt að færa inn í umræðuna. Sérstaklega fannst mér margt sem hv. þm. Pétur H. Blöndal sagði áðan vera íhugunar virði og mér fannst ræða hans bera vott um víðsýni og frjálslyndi, ég get ekki orðað það öðruvísi. Hv. þm. tók undir með okkur sem flytjum þessa tillögu sem hér er til umræðu, eða ég skildi hann svo, að það væri vel þess virði, a.m.k. einnar messu, að skoða samband ríkis og kirkju. Þær röksemdir sem við höfum flutt fyrir því í grg. með tillögunni og í máli okkar í dag voru sömu röksemdir og hv. þm. flutti, þ.e. breytt eðli samfélagsins, fjölmenningarlegt eðli samfélagsins, sem birtist í því að hingað eru komnir, og orðnir að góðum Íslendingum, margir einstaklingar sem eru upprunnir víðs fjarri Íslandsströndum og hafa aðra siði í trúarlegum skilningi en við. Hv. þm. talaði með þeim hætti að mér fannst hann skilja að til þess að þeir ættu líka sama skjól í stjórnarskránni og þeir sem fylgja trú þjóðkirkjunnar, yrðum við a.m.k. að skoða hvort ekki væri rétt að breyta þessu fortakslausa ákvæði stjórnarskrárinnar um þjóðkirkju.

Mér þóttu líka merkilega þær spurningar sem hv. þm. Pétur H. Blöndal varpaði hér fram og sagði að þyrfti að svara í umfjöllun um mál af þessu tagi, t.d. grundvallarspurningunni um það hvað þjóð er. Það er spurning sem er vel þess virði að eyða miklum tíma í að velta fyrir sér.

Hvað er þjóð, herra forseti? Ég tel, án þess að hafa brotið það djúpt til mergjar, að það megi skilgreina þjóð sem þá einstaklinga sem tala sömu tungu, eru mótaðir og aldir upp í sama menningarumhverfi og hafa þar af leiðandi lifað á sama svæði. Það er kannski hin breiða, grófa, upprunalega skilgreining á orðinu þjóð. Auðvitað hefur þessi skilgreining breyst í tímans rás. Það er eitt af því sem menn þurfa að hugsa til hlítar.

Ég hjó eftir því að hv. þm. sagði að framsal á fullveldi gæti hugsanlega skaðað okkur í framtíðinni. Hv. þm. sagði að ef við gengjum í Evrópusambandið væri það framsal á fullveldi.

Ég er sammála seinni hluta yrðingarinnar en ekki hinum fyrri, þ.e. ég er sammála hv. þm. um það að ef við göngum í Evrópusambandið þá erum við að selja fram hluta af okkar ríkisvaldi. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að það höfum við að talsverðu leyti verið að gera í gegnum árin. 21. gr. stjórnarskrárinnar heimilar forsetanum og ríkisstjórn í umboði hans að gera alþjóðlega samninga. Þessi heimild hefur verið túlkuð svo rúmt, þegar horft er til sögunnar, að framsal á töluverðum hluta af því sem líta má á sem grundvallarstoð fullveldis, þ.e. landvörnum, er talin rúmast innan þessa. Ég veit ekki hvernig menn mundu líta á það í dag ef Íslendingar væru að ganga í bandalag sem væri jafndjúpt markað af heimsátökum og Atlantshafsbandalagið var 1949. Hið sama gildir um aðild okkar að varnarsamningnum 1951. Þar var um framsal á fullveldi að ræða, en þeir sem það gerðu, og á eftir komu, töldu að það hefði styrkt þjóðina og aukið farsæld hennar og gæfu.

Með sama hætti má segja að aðild Íslendinga að margvíslegum alþjóðlegum samningum sé til þess fallin að treysta hagsæld þeirra. Ég lít t.d. svo á að samningurinn um sameiginlegan vinnumarkað á Norðurlöndum feli í sér ákveðið framsal á fullveldi. Ég tel að það hafi orðið öllum hlutaðeigandi til gæfu.

Ég tel líka, og það töldu menn, að með einhverjum hætti væri um framsal á valdi að ræða þegar við urðum aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu. Þá fóru menn þá leið að fjórir lögvitringar voru látnir skera úr um það og þeir töldu að það mál væri á gráu svæði. Það er auðvelt að færa rök fyrir því að síðan hafi reynt mjög á þanþol heimildarinnar í stjórnarskránni, svo sem ég gat um áðan, til þess að verja það, vegna þess að innviðir Evrópusambandsins hafa breyst og einnig möguleikar okkar til þess að hafa áhrif.

Það var forvitnilegt og rétt þegar hv. þm. sagði að sjálfstæðið og fullveldið sem við fengjum með því hefði reynst okkur haldbest í baráttunni við að brjótast úr fátækt til bjargálna. Það er margt til í þessu. Þó má kannski færa fyrir því rök að velsældarskeiðið sem einkenndi seinni hluta síðustu aldar hafi hafist svolítið fyrr, með nýsköpunarstjórninni sem hér var upp úr 1940 og hafi einkennst af átaki í sjávarútvegi. Það má líka segja að velsældin sem við nutum síðar hafi byggst á því að okkur tókst í ríkari mæli að ná tökum á veilum og það voru líka aðstæður, þ.e. sú friðun, bókstaflega talað, sem heimsstyrjöldin síðari fól í sér á fiskimiðunum sem gerði það að verkum að við gengum þar að fullri gnægðarkistu að lokinni heimsstyrjöld.

Þegar vindur fram um öldina og við gerumst aðilar að fríverslunarbandalögum eins og EFTA og síðar samningnum um Evrópska efnahagssvæðið erum við að selja fram ákveðið vald sem við höfum, en fáum í staðinn mjög mikilvægan aðgang að mörkuðum fyrir það frumhráefni sem við vinnum úr hafinu. Þetta er partur af sögu þjóðar sem er að þróast og breytast, og heimurinn er að breytast með og hún svarar því með þessum hætti.

Ég get samt sem áður ekki annað en tekið undir með hv. þm. að þetta eru hlutir sem þarf að brjóta til mergjar og yrðu væntanlega skilgreindir í meðförum slíkrar nefndar. Í öllu falli, herra forseti, tel ég að allir þessir hlutir séu þættir sem ein þjóð þarf stundum að gefa sér tíma til þess að velta fyrir sér, sem þjóðþing eins og okkar þarf stundum að gefa sér tóm til þess að brjóta til mergjar.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal og hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson ræddu hérna um kosningakerfið og við erum sammála, ég og hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson, um galla núverandi kerfis. Mér þótti forvitnilegt að heyra rök hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar, sem talar hér sem einn af skörulegustu fulltrúum landsbyggðarinnar. Hann lagði það hrátt og blóðugt fyrir okkur á borðið að núverandi kjördæmaskipan hafi ekki orðið til þess að styrkja landsbyggðina, síður en svo. Ég er sammála því viðhorfi sem kom fram í máli hans að ef um einn landslista væri að ræða þá hygg ég að landsbyggðinni yrði gert jafnvel hærra undir höfði en núna, m.a. til þess að fyrirbyggja ásakanir um að Reykjavíkurvaldið væri að mylja undir sig landið.

Sömuleiðis vil ég taka upp röksemd hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur, sem sagði að sú kosningaskipan sem felst í því að gera landið að einu kjördæmi yrði líkleg til þess að bæta verulega það misvægi kynja sem við sjáum í þessum sölum. Í mínum þingflokki er hlutfall kynja nánast jafnt, á síðasta kjörtímabili voru konur í meiri hluta.

En mér er sem ég sjái nokkurn stjórnmálaflokk þora ítrekað að leggja fram landslista þar sem er gróft misvægi, körlum í hag. Ég held sem sagt að breyting á kjördæmaskipan, sem fæli í sér að gera landið að einu kjördæmi, yrði stærsta skrefið sem hægt væri að taka í einu til þess að lyfta hlut kvenna, en menn geta svo haft misjafnar skoðanir á því.

Ég er alveg sammála, eða að hluta til sammála þeirri greiningu hv. þm. Péturs H. Blöndals, að það er hægt að fara tvær leiðir að því að ná því sem Héðinn Valdimarsson orðaði svo í slagorðinu 1927 ,,Einn maður -- eitt atkvæði``. Það er annars vegar að búa til landslista undir kjördæmaskipan þar sem landið er allt eitt kjördæmi, og hins vegar að fara þá leið sem ég þekki nokkuð til frá námsárum mínum í Bretlandi, þar sem eru einstaklingskjördæmi. Hvort tveggja hefur mér alltaf þótt dálítið aðlaðandi leiðir.

Herra forseti. Ég hef stundum duflað í djúpum huga míns við hugtakið sem byggir á einstaklingskjördæmum vegna þess að það er miklu auðveldara í því kerfi að ná því að sérhver þegn hafi eitt atkvæði, vegna þess að slíkum kerfum fylgir að mörkum kjördæma er stöðugt breytt, eins og í Bretlandi. Þar er kjördæmamörkum margra kjördæma tiltölulega oft breytt, jafnvel hverfa sum, en oftar er það þannig að ný verða til.

En það er annað sem fylgir því. Undir slíkri kjördæmaskipan er líklegt að ég og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kynnum að vera í sama flokki, ég er ekki að segja að það væri öruggt. Það er einfaldlega þannig að það kerfi keyrir saman hreyfingar og býr til tvær stórar hreyfingar, yfirleitt, ekki alltaf, en yfirleitt, tilhneigingin er sú. Auðvitað gerir það líka að verkum, sem er galli, að það er mjög erfitt fyrir nýjar, stórar hreyfingar sem verða til, að brjótast fram. Við sjáum það t.d. í Bretlandi þar sem frjálslyndir demókratar hafa verið mjög lengi að ná þokkalegri fótfestu og hafa þó áratugum saman verið með ívið hærra hlutfall atkvæða í sínu landi en flestir stjórnarandstöðuflokkarnir höfðu þangað til fyrir örskömmu síðan. Það er því gallinn sem er á því. Þetta þurfa menn hins vegar allt saman að vega og meta.

Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að reynslan af síðustu kosningabaráttu hafi verið sú að það kerfi sem við búum við núna sé sennilega versta kerfið sem við höfum haft mjög lengi, það er nú mín skoðun.

Herra forseti. Ég ætla ekki að orðlengja þetta frekar. Ég ætla að þakka fyrir þessar umræður, mér finnast þær hafa verið málefnalegar og góðar. Ég gleymdi því í upphafi umræðnanna að leggja það til að þessari þáltill. yrði að lokinni umræðu vísað til allshn.