Gjaldfrjáls leikskóli

Mánudaginn 06. október 2003, kl. 18:30:38 (205)

2003-10-06 18:30:38# 130. lþ. 4.5 fundur 4. mál: #A gjaldfrjáls leikskóli# þál., RG
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 130. lþ.

[18:30]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Frú forseti. Ég tek undir með 1. flm. þessarar tillögu að það er komin hreyfing á þessi mál. Það er nauðsynlegt að ræða þau og það er nauðsynlegt að taka upp viðræður og leiða það til lykta hvert hlutverk leikskólans á að vera og hvort fyrsta skólastigið hefjist í leikskólanum eða ekki. Þegar ég hlýddi á ræðu hv. þm. var ég að hugsa um hversu leikskólinn og málefni hans voru drjúgur þáttur í starfi mínu í félagsmálunum í Kópavogi á sínum tíma meðan leikskólinn var í meginatriðum skilgreindur sem félagslegt úrræði og samtvinnaður öðrum félagslegum úrræðum bæjarfélagsins. Jafnframt að það voru talsverðar deilur uppi þegar hreyfing komst á um að flytja leikskólann undir menntakerfið og skilgreina leikskólann þar með sem skóla og starfsstéttirnar, sem áður höfðu verið nefndar fóstrur, sem leikskólakennara. Því má segja að þegar þessar breytingar voru gerðar þá var hafin sú leið sem ekki hefur leitt okkur fram um veg, leikskólinn er nefnilega enn þá úrræði sveitarfélagsins. Enn þá er leikskólinn niðurgreiddur af sveitarfélaginu en að uppistöðu, eins og hér kom fram, kostaður af foreldrum og það hefur ekki verið skilgreint hvort leikskóli skuli í raun verða fyrsta skólastigið og hvort hann sé alfarið verkefni sveitarfélags eða hvort ríkið komi þar að. Þess vegna er ég afskaplega hlynnt þeim markmiðum sem hér eru sett og því að þessi mál verði rædd.

Þá komum við að öðru. Sveitarstjórnarmenn eru afskaplega ósáttir með sinn hlut í samskiptum við ríkið hvað varðar tekjur sveitarfélaga og verkefni. Það virðist sem það sé alveg sama þegar maður ræðir við sveitarstjórnarmenn hvort það eru samflokksmenn ríkisstjórnarinnar eða ekki, menn segja bara að verkefni sveitarfélaganna séu of mikil og þung miðað við óbreytta tekjustofna og sveitarfélögin eigi fullt í fangi með sín lögbundnu verkefni og brýnasta málið sem þurfi að fara í sé endurskoðun á verkefnum og tekjustofnum. Og þeir sveitarstjórnarmenn sem eru mjög áfram um að taka að sér frekari verkefni, svokölluð nærverkefni frá ríkinu, eru svo hræddir vegna reynslunnar af grunnskólanum og þeirra þungu verkefna og kostnaðar sem af þróun þeirra mála hefur orðið hjá sveitarfélögunum. Þess vegna mun ekki komist hjá því ef sveitarfélögin ætla að taka á sig þennan þátt, þ.e. skólastig leikskólans, að þau verði annaðhvort að fá stuðning frá ríkinu eða gjörbreytta tekjustofna.

Mér er þetta mál sem hér er rætt ekki ókunnugt. Í tvennum sveitarstjórnarkosningum hafa slíkar tillögur verið bornar fram í Kópavogi af mínum flokki þar og sú tillaga byggðist á að byrjað væri á elsta leikskólastiginu, fjórir tímar í upphafi skilgreindir sem skólastig og byrjað á efsta árganginum. Þetta var reiknað út í Kópavogi og talið að miðað við barnafjöldann þar mundi kosta um 30 millj. á ári að framkvæma þessa tillögu, þó ekki meira en það, að gera öllum börnum í elsta árgangi kleift að vera í leikskóla í fjóra tíma sem væru skilgreindir sem fræðslustig.

Hér var nefnt hver væri ályktun leikskólakennara í þessu efni og það má lesa um leikskólastefnu Félags leikskólakennara á ki.is, vef Kennarasambandsins, og þar er lagt til það framtíðarmarkmið að sex tímar verði skilgreindir sem kennsla, fræðsla, uppeldi, hvað svo sem við viljum flokka undir það, og það sem börnin mundu vera umfram í leikskólanum væri þá eitthvað sem þyrfti að skilgreina. Það væri sem sagt leikur, gæsla, en sex tímar væru það hámark sem hægt væri að bjóða þessum aldurshópi upp á sem beina kennslu eða fræðslu. Þarna er svipuð hugsun uppi hjá Félagi leikskólakennara og okkur í Samfylkingunni í Kópavogi sem bárum fram þessa tillögu í kosningunum, og ég tek undir það sjónarmið sem kemur fram hjá Félagi leikskólakennara að það eru beinlínis mannréttindi barna að fá að vera í leikskóla og fá að taka þátt í því sem þar er boðið upp á, fræðslu, kennslu og samvistir og örvun sem felst í því að vera með öðrum börnum við þær aðstæður sem leikskólinn býður upp á. Og íslenski leikskólinn er frábært stig í fræðslu og umönnun barna, frábært.

Auðvitað yrði það þannig, ef leikskólinn verður skilgreindur að hluta sem skólastig, hvort sem það eru fjórir tímar eins og menn lögðu til sem byrjunarskref í Kópavogi eða sex tímar sem Félag leikskólakennara leggur til, að greitt yrði fyrir viðbótartíma fyrir þau börn sem þurfa að vera lengur. Það virðist hugsunin á báðum stöðum.

Þá ætla ég líka að leyfa mér að nefna að það getur líka verið að við komum innan tíðar að því hvað hægt sé að bjóða börnum upp á margar klukkustundir í leikskóla og gæslu. Það hefur aukist að báðir foreldrar séu á vinnumarkaði, ungir foreldrar séu á framabraut. Í nýja kerfinu þar sem fólk er ráðið til starfa til að skila ákveðnu verkefni og það er ekki skilgreint hversu langur vinnudagurinn er og hefðbundið er að sá vinnudagur sé allt of langur, það þýðir að vinnudagur barns í leikskóla er líka allt of langur. Þetta þarf að skoða og það þarf að skilgreina öll þessi mál og þess vegna vil ég koma hér og lýsa yfir stuðningi mínum við að Alþingi skoði þessi mál og við hefjum umræðu um afskaplega þýðingarmikið mál sem þarf að hafa framgang og sem ég er sannfærð um að er bara tímaspursmál hvenær hefur framgang vegna þess að það er búið að taka fyrsta skrefið, nefnilega að ákveða að leikskóli sé skóli og fræðslan þar sé hjá leikskólakennurum.