Gjaldfrjáls leikskóli

Mánudaginn 06. október 2003, kl. 18:38:49 (206)

2003-10-06 18:38:49# 130. lþ. 4.5 fundur 4. mál: #A gjaldfrjáls leikskóli# þál., KolH
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 130. lþ.

[18:38]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Hæstv. forseti. Leikskóli er samkvæmt lögum fyrsta skólastigið í íslensku skólakerfi þar sem megináhersla er lögð á menntun í gegnum þroskandi leiki og starf. Starfið í leikskólanum er mjög víðtækt. Það gengur út á hreyfingu, málrækt, myndsköpun, tónlist, náttúru og umhverfi, menningu og samfélag eins og lesa má í aðalnámskrá fyrir leikskóla sem gefin var út af menntmrn. árið 1999 og er sannarlega hið merkasta plagg sem segir nánar frá uppeldisstefnunni sem leikskólum á Íslandi er gert að fylgja.

Í leikskólanum er lagður grunnur að skólagöngu einstaklinganna og því má segja að leikskólinn sé sjálfsagður undirbúningur undir lífið sjálft og þess vegna, eins og hv. seinasti ræðumaður, Rannveig Guðmundsdóttir, sagði hér á undan mér, mannréttindi barna. Það eru sjálfsögð mannréttindi barna að fá að stunda nám í leikskóla og leikskólinn er hluti af hinu almenna skólakerfi okkar og er sem slíkur að verða óaðskiljanlegur frá öðrum skólastigum. Gjaldfrír leikskóli er ekki bara kjarabót, eins og hv. 1. flm. þessarar tillögu vék að í ræðu sinni áðan, því hann stuðlar líka að jafnrétti til náms sem er ekki síður mikilvægt að hafa í huga. Hugmyndin er nútímaleg og hún er að ryðja sér til rúms í sveitarfélögum hér á landi sem og víða í nágrannalöndum okkar vegna þess að hún er í takt við nýja tíma, tíma þar sem menntun barna er höfð að leiðarljósi við þjóðfélagsuppbyggingu í þjóðríkjum um allan heim, og hugmynd af þessu tagi þykir vera þess eðlis að haldgóð menntun og aukin menntun skipti sköpum um velferð þjóða. Það er þess vegna ekki ólíklegt að þau skref sem verið er að stíga á Norðurlöndunum í þessu efni verði á endanum fyrirmynd fyrir aðrar þjóðir sem eflaust eiga eftir að horfa til þeirra skrefa sem hér er verið að taka.

Í hugum okkar flutningsmanna þessarar tillögu eiga börn rétt á að vera í leikskóla eins og ég sagði áðan og þess vegna er afar brýnt að uppbygging skólakerfisins og menntakerfisins almennt gangi út frá því að börn eigi þess kost að sækja leikskóla, þeim sé gert það kleift. Og eins og vikið hefur verið að í ræðum þeirra þingmanna sem hér hafa talað, þá er Vinstri hreyfingin -- grænt framboð ekki að finna upp hjólið í þessum efnum því stefna Félags leikskólakennara gerir ráð fyrir því að öllum börnum sé gefinn kostur á leikskóladvöl og það hefur skilgreint sína stefnu út frá ákveðnum markmiðum og framtíðarmarkmiðið er að sex tíma dvöl í leikskóla verði skilgreint sem nám og hluti af hinu almenna skólakerfi.

Nú þegar er staðan sú að u.þ.b. 90% allra barna á leikskólaaldri er með pláss á leikskóla og maður spyr sig óneitanlega: Hverjir eru þá í hópi þeirra 10% sem ekki nýta sér þjónustu leikskólanna? Um það eru til ýmsar vísbendingar og þar má til að mynda nefna nýja Íslendinga og fólk sem ekki hefur þær ráðstöfunartekjur að það telji sig hafa ráð á að senda börnin sín í leikskóla. Þetta er auðvitað afar alvarleg staðreynd því það má halda því fram með góðum rökum að sá félagslegi þroski sem börn öðlast við dvöl á leikskóla geti skilið á milli feigs og ófeigs þegar farið verður að stíga erfiðu sporin í grunnskólanum. Þannig að það er kannski hægt að hugsa sér að girt verði fyrir þann félagslega vanda sem börn eiga oft við að etja í grunnskólanum með því að þau eigi kost á leikskóladvöl fyrr á skólastiginu.

Í dag eiga sem sagt níu af hverjum tíu af börnum á Íslandi þess kost að stunda nám í leikskólum landsins. Það yrði foreldrum þessara barna stórkostleg kjarabót að gera leikskólann gjaldfrían. T.d. greiða hjón með tvö börn á leikskóla u.þ.b. 50 þús. kr. á mánuði fyrir börnin tvö og því eru árlegar heildargreiðslur 600 þús. kr. eða tillaga af þessu tagi mundi jafngilda því að launahækkun þessara foreldra yrði u.þ.b. 1 milljón þegar tillit er tekið til skattgreiðslna, ef gengið er út frá því að báðir foreldrar hafi laun yfir skattleysismörkum. Þannig yrði þetta ekki síst kjarabót fyrir hjón eða fólk í sambúð þótt auðvitað yrði þetta líka kjarabót fyrir alla þá sem hafa börn á leikskóla.

Í umræðum um þetta þurfum við líka að hafa í huga að leikskólinn er menntastofnun en ekki félagslegt úrræði fyrir vinnandi fólk eins og getið var um í ræðum á undan. Í leikskólanum fer fram markviss kennsla í gegnum leik og starf þar sem börn eru búin undir frekara nám í grunnskóla. Þau börn sem ekki eiga þess kost að nýta sér það nám sem þar er í boði fara margs á mis eins og ég gat um áðan varðandi félagslegan þroska.

Af þessum ástæðum og öðrum sem tíundaðar hafa verið í þessum umræðum er brýnt að tryggja það að allir hafi jafnan aðgang að leikskólunum óháð efnahag foreldra. Við værum þá mögulega að styrkja einstaklingana í samfélaginu og sjá til þess að grunnurinn undir þroska þeirra sé þannig lagður að þau eigi auðveldara með eða meiri líkur séu á að þau eigi auðveldara með að fóta sig í lífinu þegar fram líða stundir.

Það hefur verið vikið að því hér hvernig Reykjavíkurborg hefur komið sínum málum fyrir í þessum efnum en það er nú þannig að árið 1994 voru einungis 30% rýma í leikskólanum í Reykjavík heilsdagsrými en nú er svo komið að u.þ.b. 80% leikskólarýma í Reykjavík eru orðin heilsdagspláss og það segir auðvitað talsvert til um þörfina en það segir líka talsvert til um hvað við höfum tekið stór skref til framfara í þessum efnum á síðustu árum. Það hefur nánast verið lyft grettistaki í þessum efnum þar sem það þykir orðið sjálfsagt mál að börnin eigi kost á leikskóladvöl a.m.k. frá tveggja ára aldrei hér í Reykjavík og flest sveitarfélög í kringum okkur og vítt og breitt um landið hafa tekið svipaða stefnu og Reykjavík hefur gert og nú leggja sveitarfélög vítt og breitt ofurkapp á það að standa vel að leikskólunum.

Það er nauðsynlegt eins og hér hefur verið getið að ríkisvaldið axli sína ábyrgð í þessum efnum. Þetta er samkvæmt lögum skilgreint fyrsta skólastigið og það er lögum samkvæmt á ábyrgð ríkisvaldsins að þegnarnir njóti menntunar og það er bara þetta skref sem við eigum eftir að stíga, að sjá til þess að ríkisvaldið axli sína ábyrgð á leikskólastiginu á sama hátt og það hefur gert á grunnskólastiginu.

Ég held að hér sé búið að fara yfir flest meginatriðin í þessum efnum og það verður spennandi að sjá hvernig hv. félmn. þingsins fjallar um þetta mál og hvaða viðhorf koma þar fram en ég óska þess sannarlega að þessi tillaga fái öflugt brautargengi í þinginu.