Gjaldfrjáls leikskóli

Mánudaginn 06. október 2003, kl. 18:55:17 (209)

2003-10-06 18:55:17# 130. lþ. 4.5 fundur 4. mál: #A gjaldfrjáls leikskóli# þál., PHB
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 130. lþ.

[18:55]

Pétur H. Blöndal:

Frú forseti. Við hv. þingmenn búum við það ánægjulega vandamál að þurfa að taka eftir kyni hæstv. forseta. Það var ekki þannig á síðasta kjörtímabili. Þá gat maður alltaf sagt ,,herra forseti``. Ég ætla að vona að frú forseti sýni mér mildi ef mér skyldi verða á að hrasa á tungunni.

Frú forseti. Við ræðum hér um till. til þál. um gjaldfrjálsa leikskóla. Manni verður hugsað til þess hversu mikil breyting hefur orðið síðustu 30--40 árin í þeim efnum, þar sem börn fara sífellt yngri að heiman ,,til vinnu``, eins og menn hafa sagt, bæði hjá leikskólum og dagmæðrum. Þess eru jafnvel dæmi að börn fari að heiman allt niður í sex mánaða.

Nú veit ég ekki um aðra hv. þingmenn en mín reynsla af uppeldi barna er sú að þau vilji ekki fara að heiman ef þau eru yngri en þriggja ára. Um þriggja ára aldur verður reyndar dálítil breyting á, þá vilja þau fara að skreppa í heimsókn og þá virðist kominn hjá þeim ákveðinn þroski til að takast á við önnur verkefni en þau sem eru innan heimilisins. Mér finnst þess vegna dálítið undarlegt að í þessu frv. er hvergi minnst á litlu börnin --- þessi sex mánaða, átta mánaða og eins árs, eins og hálfs árs --- en reyndar gat hv. þm. Ögmundur Jónasson um einmitt þetta vandamál í ræðu sinni áðan.

Ég hef séð mörg dæmi þess í leikskólum sem börnin mín hafa sótt að sum börn eru afskaplega ósátt við að fara að heiman, jafnvel allt upp undir þriggja ára aldur og gráta stöðugt, eða grenja eins og kallað er, allan daginn og eru til mikilla leiðinda fyrir starfsfólk leikskólans. Ég held að við þurfum að taka þetta með í reikninginn og ekki tala endilega um mannréttindi til handa börnum. Mér finnst að það þurfi líka að spyrja hvað þau vilja. Ég hugsa að margt barnið mundi frekar vilja vera innan kunnuglegra veggja heimilisins en að fara út í hinn stóra heim, alla vega meðan það er yngra en þriggja ára.

Ég hef velt því fyrir mér, þar sem sveitarfélagið borgar sennilega um 50 þús. kr. með hverju barni, að foreldranir fái ávísun sem því nemur og geti ráðstafað þeim peningum skattfrjálst, eins og er í dag því að þessi hlunnindi eru ekki skattskyld. Þetta er reyndar hugmynd sem Sjálfstfl. hafði í Reykjavíkurborg en var því miður púuð niður, aðallega vegna þess að menn ætluðu að skatta þetta sem þó er skattfrjálst í dag. Foreldrarnir gætu síðan valið hvort þeir vildu senda börnin í leikskóla eða ekki.

Ef maður tekur inn í dæmið samband fæðingarorlofs --- sem ég tek undir að er eitt stærsta skref sem stigið hefur verið og þá aðallega til jafnari launa eins og er að koma í ljós með síðustu launakönnunum --- foreldraorlofs, sem er heimild foreldra til að taka sér orlof launalaust, og greiðslu sveitarfélags tel ég mig geta reiknað, reyndar lauslega, að hjón með eitt barn gætu verið heima fyrstu þrjú árin, unnið hálfan daginn hvort allan tímann og samt verið nánast eins sett fjárhagslega. Barnið getur verið heima allan tímann fyrstu þrjú árin og ef þetta yrði almennt tekið upp þá minnkaði þörf sveitarfélaga til að útvega leikskóla fyrir þessi ungu börn og biðlistar mundu hverfa hjá eldri börnunum. Þá yrði nægt pláss. Þetta finnst mér þurfa að skoða svo að foreldrar geti valið.

Það er líka þannig að foreldrar sem eiga kannski þrjú börn á leikskólaaldri eru að fá styrk upp á 150 þús. kr. skattfrjálst. Það eru bara ekkert voðalega margir einstaklingar sem hafa þær tekjur eftir skatt. Ég hugsa að margar fjölskyldur og alveg sérstaklega fjölskyldur með lítil börn væru fjárhagslega miklu betur sett með þessa niðurgreiðslu sveitarfélagsins sem ávísun, sem þau geta annaðhvort leyst út eða notað til að greiða fyrir barnið á leikskóla. Menn gætu þá valið leikskóla. Þetta gefur líka möguleika á því að leikskólar yrðu einkavæddir. Sem ég tel mjög þarft.

Með samkeppni milli leikskóla mundi t.d. detta niður hið furðulega fyrirbæri sem rústar reglulega heimilum í landinu, þ.e. starfsdagar og foreldraviðtöl. Menn leyfa sér að loka þessum þjónustustofnunum sem veldur mikilli óreiðu og krefst mikillar skipulagningar hjá barnmörgum fjölskyldum. Oft kemur þetta sitt á hvað hjá börnum á skólaaldri og börnum á leikskólaaldri. Þar er ekkert samband á milli. En ég vil að þetta tilefni verði notað til að menn skoði möguleikann á að taka upp beingreiðslur, styrk sveitarfélagsins sem yrði skattfrjáls samkvæmt lögum og foreldrarnir gætu síðan valið hvort þeir sendu börnin í leikskóla eða ekki. Þetta gæti t.d. gilt upp að 3--4 ára aldri.

Ég tek undir það með mörgum hv. þm. að leikskólinn hefur menntagildi fyrir eldri börnin. Ég fellst ekki á að það gildi um yngstu börnin. Ég held að það sé alltaf best fyrir þau að foreldrarnir ali þau upp.