Gjaldfrjáls leikskóli

Mánudaginn 06. október 2003, kl. 19:01:55 (210)

2003-10-06 19:01:55# 130. lþ. 4.5 fundur 4. mál: #A gjaldfrjáls leikskóli# þál., Flm. SJS
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 130. lþ.

[19:01]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Frú forseti. Ég skal ekki lengja þessa umræðu mikið. Ég hlýt auðvitað að byrja á því að biðjast hér afsökunar og fyrirgefningar á yfirsjón minni, þeirri að sitja fastur í gömlu fari og ávarpa forseta sem um karl væri að ræða, en ég hef það mér til afsökunar, og þó ekki, ekki til afsökunar, en kannski er skýringin sú, eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal impraði hér á, að á síðasta kjörtímabili þurftu menn ekki að hugsa um þetta mikið og reyndar allt of sjaldan á þeim 20 árum sem ég hef verið hér. Langoftast hefur ávarpið ,,herra forseti`` átt rétt á sér í bókstaflegum skilningi.

Ég þakka þær umræður sem hér hafa orðið og undirtektir við þessa tillögu. Margt hefur borið á góma í samhengi við hana sem eðlilegt er. Menn hafa rætt um málið sem lið í skólahaldi í landinu, sem lið í jafnrétti, sem kjarabót og síðan hefur talsvert verið rætt um þetta í samhengi við stöðu mála á vinnumarkaði, hvað varðar fæðingarorlof og annað í þeim dúr. Það á allt saman rétt á sér, að sjálfsögðu.

Varðandi gæði þess starfs sem fram fer í leikskólunum og þær gríðarlegu framfarir sem þar hafa orðið á skömmum tíma komu mjög góð sjónarmið fram í umræðunni. Ég held að það sé ekki ofmælt að þar hafi nánast verið lyft grettistaki á síðustu 10--20 árum, einkum í því hvernig menn nálgast þessa hluti í dag. Það hefur verið virkilega ánægjulegt að kynnast því metnaðarfulla starfi sem þarna er unnið. Ég hygg að margir hv. alþm. þekki til þess af eigin raun eftir að hafa haft börn sín á leikskólum þó að nokkuð sé um liðið síðan flestir voru á aldri til þess að njóta þess sjálfir þó að örugglega séu einhverjir hér sem það hafa gert. Ég get a.m.k. sagt út frá minni reynslu sem foreldris, eftir að hafa haft börn, eitt eða fleiri, á leikskólum samfellt í, hygg ég, ein 16 ár, að reynsla mín er sú að þarna sé unnið frábært starf og hafi verið jafnt og þétt að eflast, sérstaklega sá hlutinn sem lýtur að leikskólanum sem menntastofnun.

Það er auðvitað hægt að hugsa sér, eins og hér hefur borið á góma, ýmsa áfangaskiptingu í þessu verkefni. Ég nefndi það í framsöguræðu minni að viss tímafjöldi á dag gæti verið liður í því að innleiða þessa kerfisbreytingu í áföngum eins og síðan margir hv. þm. hafa nefnt. Út frá sjónarhóli fræðslu- og uppeldishliðar málsins má sjálfsagt nálgast það þannig að einhver tiltekinn tímafjöldi sé þá fullnægjandi og foreldrarnir geti síðan greitt fyrir afganginn, hvort sem það væru 6 tímar án gjaldtöku og síðan tveir, þrír í viðbót ef svo bæri undir sem menn greiddu þá fyrir. Ef við hins vegar nálgumst málið frá hinni hliðinni og lítum til þeirrar staðreyndar að í yfirgnæfandi meiri hluta tilfella eru báðir foreldrar útivinnandi og í fullu starfi sjáum við að þar með er 8,5--9 tíma dvöl barnsins á leikskóla eða í einhvers konar annars konar dagvistun einfaldlega sú staðreynd lífsins sem við þurfum að ganga út frá. Við getum rætt og rökrætt um uppeldislegar hliðar málsins og hvað væri æskilegt í hinum fullkomnasta heimi allra heima í þessum efnum, að foreldrar gætu verið mun meira samvistum við börn sín, lengur heima eftir fæðingu o.s.frv., en veruleikinn er sá sem hann er. Og ég held að við verðum að skoða leikskólann út frá því samfélagi sem við finnum okkur í.

Það sem ég mundi sérstaklega telja að þyrfti að þróast er fæðingarorlof, foreldraorlof, bæði lengd þess og sveigjanlegur réttur til töku sem yrði stilltur af í takt við síðan það framboð á leikskóladvöl sem menn sæju fyrir sér og ættu rétt á. Víða í nágrannalöndunum er þetta þannig að fæðingarorlof er a.m.k. eitt ár og réttur til töku þess er mun sveigjanlegri en hann er hér þannig að a.m.k. í Svíþjóð geta menn dreift fæðingarorlofinu að einhverju leyti allt upp að 7 ára aldri barns og m.a. er það hugsað til að auðvelda foreldrum aðlögun í áföngum við að fara út á vinnumarkaðinn að venja börn sín við dvöl á leikskóla og annað í þeim dúr. Mjög gjarnan mætti saman fara þróun þar sem réttur foreldra til gjaldfrjáls leikskólanáms væri aukinn, þar sem fæðingarorlofið lengdist, þar sem sveigjanleiki til töku fæðingarorlofs væri aukinn og síðast en ekki síst auðvitað vinnuvikan stytt. Það er staðreynd sem þýðir ekkert annað en að horfast í augu við eins og er að Ísland sker sig úr í öllum samanburði norrænum á vinnumarkaði hvað varðar miklu lengri vinnuviku hér en nokkurs staðar annars staðar og nemur hann mörgum klukkustundum á viku hverri.

Frú forseti. Einhver ræðumanna fyrr í umræðunni tók svo til orða að þetta mál mundi sækja á og ég tek svo sannarlega undir það. Ég er algerlega sannfærður um að það er aðeins tímaspursmál hvenær þróun í þessa átt sem tillagan gerir ráð fyrir hefst. Það er kannski meira tímaspursmál hvenær þetta fer af stað. Málið mun vinna fyrir sig sjálft og ég held að það sé gleðilegt og gaman þegar við eigum hér erindi í ræðustólinn og notum tímann til þess að ræða einhver þau mál sem við getum vonandi öll verið sammála um að horfa til framfara, fela í sér umbætur, eru uppbygging í velferðarsamfélagi okkar því að allt of oft er það hlutskipti okkar að ræða breytingar í aðra átt, standa hér í einhvers konar vörn fyrir þó það sem áunnist hefur á umliðnum árum vegna þess að auðvitað er líka sótt að ýmsu sem flokkast undir félagsleg réttindi fólks í þessu landi. Því miður er það þannig. Niðurskurðarhnífurinn blikar iðulega á lofti og ýmsar kerfisbreytingar eru líka pólitísks eðlis og a.m.k. ekki endilega þannig að við, sum hver, teljum þær til framfara.

Sem sagt, frú forseti, ég þakka svo þessa umræðu og vona að málið fái brautargengi. Við viljum sýna okkar einbeitta vilja í þeim efnum, m.a. með því að hafa þetta okkar fyrsta þingmál á þessum vetri þannig að varla verði þá borið við tímaskorti og málið fái ekki framgang, heldur komist til umsagnar og ég er sannfærður um að þær munu vinna með málinu. Við finnum mjög víða að það mætir skilningi og fyrir því er mikill hljómgrunnur að tekin verði skref í þessa átt.