Gjaldfrjáls leikskóli

Mánudaginn 06. október 2003, kl. 19:11:57 (212)

2003-10-06 19:11:57# 130. lþ. 4.5 fundur 4. mál: #A gjaldfrjáls leikskóli# þál., Flm. SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 130. lþ.

[19:11]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að auðvitað hefur Alþingi og löggjafinn ýmis áhrif á mótun samfélagsins með sinni laga- og reglusetningu, með fjárveitingavaldinu og því hvernig tekna er aflað og gæðunum skipt. Þetta mál er auðvitað talandi dæmi um það. Að sjálfsögðu erum við að flytja þingmál sem við trúum að hafi jákvæð áhrif á samfélagið. Við teljum að það geri samfélagið fjölskylduvænna. Við teljum að þetta sé allt í senn, eins og hér hefur komið fram, uppeldislegt og menntunarlegt framfaramál, kjarabót til handa þeim fjölskyldum í landinu sem þarf að búa betur að og þetta sé liður í auknu jafnrétti og jöfnuði í samfélaginu. Ég held að við getum öll verið sammála um það að við vildum gjarnan sveigjanlegra ástand hér í landinu þannig að foreldrar gætu, eftir því sem þau sjálf vilja og kjósa, eytt meiri tíma með börnum sínum, hvort sem það gerist í formi hlutastarfa framan af á meðan verið er að sinna barnauppeldi, að þau geti verið lengur heima eftir fæðingu eða að það gerist einfaldlega á lengri tíma með styttri vinnuviku sem væri auðvitað mjög æskilegt. Það er enginn vafi á því að hin langa vinnuvika hér og þessi harða keyrsla á það að báðir foreldrar, þó að við tölum bara um þær fjölskyldur sem þar eiga í hlut, ekki bara fari út að vinna strax eftir að lágmarksfæðingarorlofstímanum lýkur heldur vinni fullan og mjög langan vinnudag. Sá er veruleikinn. Og ef leikskólinn er ekki til staðar með sín úrræði eins og ástandið er í dag er langlíklegast að börnunum sé þá komið fyrir með einhverjum öðrum hætti hjá dagmæðrum eða jafnvel að þau séu keyrð endanna á milli til að koma þeim í dvöl hjá ættingjum eða eitthvað annað í þeim dúr. Þá held ég að það að menn eigi kost á og rétt á gjaldfrjálsri leikskóladvöl sé tvímælalaust mikið framfaraspor samanborið við það sem við stöndum frammi fyrir í dag og ég tel að hafi komið rækilega fram í þessari umræðu og í undirtektum þeirra hv. þm. sem hafa tekið jákvætt í tillöguna.