Ísland og þróunarlöndin

Þriðjudaginn 07. október 2003, kl. 13:43:49 (218)

2003-10-07 13:43:49# 130. lþ. 5.94 fundur 60#B Ísland og þróunarlöndin# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 130. lþ.

[13:43]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Frammistaða Íslands hvað varðar framlög til þróunarsamvinnu hefur lengi verið til skammar. Við höfum lengst af deilt sæti í skammarkróknum með Bandaríkjunum sem þau velmegunarríki innan Efnahags- og framfarastofnunarinnar sem lægstu hlutfalli þjóðartekna verja til opinberrar þróunaraðstoðar. Þetta hlutfall hefur lengst af verið um 0,1% af þjóðartekjum og er það enn þá ef frá eru talin þau útgjöld sem fyrst og fremst hafa bæst við á síðustu missirum vegna ráðningar á Íslendingum til starfa í svokallaðri friðargæslu. Það má því sannarlega deila um það hvort markmið samþykktar ríkisstjórnar frá 1997 hafi staðist nema menn fallist á þá reikningsaðferð sem hér er viðhöfð, að hækka hlutfallið með því að telja þróunarsamvinnu til tekna öll þau útgjöld sem tengjast Íslensku friðargæslunni.

Staða Íslands í þessu efni stingur sérstaklega í augu í ljósi þess að það eru einkum hin Norðurlöndin, Noregur, Danmörk og Svíþjóð, og lönd eins og Holland sem standa sig vel í þessum efnum og hafa uppfyllt markmið Sameinuðu þjóðanna. Ísland hefur algera sérstöðu ef það er borið saman við löndin í næsta nágrenni okkar sem við þó gjarnan viljum líkjast og teljast samanburðarhæf við. Tillögur í nýrri skýrslu eru að sjálfsögðu í rétta átt en þær hefðu að mínu mati þurft að vera mun metnaðarfyllri. Það má líka minna á það að Ísland getur lagt ýmislegt af mörkum, ekki bara með því að auka fjárframlög sín heldur einnig með því að reka uppbyggilega pólitík í málefnum þróunarlanda almennt, t.d. berjast á alþjóðavettvangi fyrir niðurfellingu skulda og annað í þeim dúr. Þetta snýst líka um pólitík, ekki bara peninga.

Framlög Íslands í þessum efnum hafa verið tengd við væntanlegt framboð okkar til sætis í öryggisráðinu. Hæstv. utanrrh. hefur tekið því illa og talið að menn væru þar að leiða að því líkum að við ætluðum að auka þessa aðstoð til þess að kaupa okkur atkvæði. Það hefur engum manni dottið í hug nema hæstv. utanrrh. sjálfum. Hitt er annað mál að þessi bága frammistaða er dæmd til þess að lenda í þessu sviðsljósi og það verður hæstv. utanrrh. að þola.