Ísland og þróunarlöndin

Þriðjudaginn 07. október 2003, kl. 14:01:18 (226)

2003-10-07 14:01:18# 130. lþ. 5.94 fundur 60#B Ísland og þróunarlöndin# (umræður utan dagskrár), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 130. lþ.

[14:01]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur fyrir að hreyfa þessum mjög svo mikilvægu málum. Þróunarhjálp og þróunarsamvinna, aðstoð ríkra þjóða gagnvart þeim sem eru fátækari eru ekki bara orð á blaði, ekki bara eingöngu útsettir fjármunir, ekki magnyl til að sefa slæma samvisku okkar sem betur mega sín. Það er ekki síður spurning um lífssýn, spurning um pólitískar áherslur, um jöfnuð og réttlæti.

Við Íslendingar viljum gjarnan vera fullgildir í samfélagi þjóðanna og í samvinnu á alþjóðlegum vettvangi. Það erum við svo sannarlega ekki þegar kemur að þessum málaflokki, því miður. Við þurfum því að taka okkur myndarlega á, gera meira með markvissari hætti, hraðar og með ákveðnari skrefum og við getum það og eigum að gera það.

Við liggjum eins og hér hefur komið skýrt fram langt undir viðmiðunarmörkum Sameinuðu þjóðanna og öllum öðrum viðmiðunum. Það er nauðsynlegt að tala skýrt í þessum efnum og taka klár og kvitt skref. Það stendur ekki á okkur jafnaðarmönnum í þessum efnum. Það vil ég láta koma hér skýrt fram og í fyrirspurn málshefjanda gagnvart hæstv. utanrrh. var spurt með mjög einföldum og skýrum hætti hvort hæstv. ráðherra og ríkisstjórnin stefndi á það að tvöfalda þessi framlög á næstu þremur árum. Við styðjum slíka stefnumörkun. Það skal vera alveg skýrt hér. Spurningin er hvort ríkisstjórnin ætlar að gera slíkt hið sama. Þó að við leiðum auðvitað ekki til lykta stór og viðamikil siðferðileg álitaefni og pólitísk álitaefni í stuttri hálftímaumræðu, þá er þó mikilvægt að hún skilji eitthvað eftir sig og því árétta ég þá spurningu hvort hæstv. utanrrh. ætli að vera með í okkar liði í þeim efnum að tvöfalda framlög til þessara mikilvægu mála.