Ísland og þróunarlöndin

Þriðjudaginn 07. október 2003, kl. 14:03:28 (227)

2003-10-07 14:03:28# 130. lþ. 5.94 fundur 60#B Ísland og þróunarlöndin# (umræður utan dagskrár), Flm. ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 130. lþ.

[14:03]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Hæstv. forseti. Ég fagna þeim samhljóm sem verið hefur í þessari umræðu í dag og tek undir með hæstv. utanrrh. að þróunarsamvinnan og þróunaraðstoðin sem slík er flókin, hún er margþætt í eðli sínu og hún er til langs tíma og því skiptir það þeim mun meira máli að vanda undirbúninginn og sinna verkefnum sem skila raunverulegum árangri til langs tíma, verkefnum sem standa í fimm eða tíu ár, jafnvel lengur. Þegar við tölum um að bólusetja öll börn í suðurhluta Afríku, kenna öllum konum að lesa, sjá til þess að allir hafi aðgang að hreinu vatni, þá eru það auðvitað verkefni sem taka mörg ár, en þau eru ekki óleysanleg, herra forseti. Það er því mjög mikilvægt að við leggjum okkar lóð á vogarskálarnar til þess að finna út úr því hvernig við ætlum að leysa þessi verkefni með þúsaldarmarkmiðin að leiðarljósi að sjálfsögðu og síðan þau pólitísku markmið sem við Íslendingar setjum okkur og við hv. þm. setjum okkur í þessum sal. Þess vegna er mjög mikilvægt að sú umræða fari fram hér og nú, ekki bara í þetta eina skipti heldur í vetur og næstu missiri um það hvernig við mörkum þessa stefnu til langs tíma.

Framlag sem er 0,3% af landsframleiðslu er svo sannarlega raunhæft markmið og ég segi eins og hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson: Samfylkingin er tilbúin til þess að leggja sitt af mörkum til þess að svo verði gert en til þess að það sé gert almennilega þurfum við góða stefnumótun og skýr pólitísk markmið og í þeirri vinnu erum við svo sannarlega tilbúin til að taka þátt.