Fjáraukalög 2003

Þriðjudaginn 07. október 2003, kl. 14:18:58 (231)

2003-10-07 14:18:58# 130. lþ. 5.3 fundur 87. mál: #A fjáraukalög 2003# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 130. lþ.

[14:18]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Þingmaðurinn spurði um það sem hann kallaði ,,grátt svæði``, þ.e. um liði í frv., eins og ég skildi hann, sem e.t.v. ættu ekki heima þar, þ.e. fjárveitingabeiðnir sem hugsanlega samræmdust ekki ýtrustu kröfum um það hvað ætti réttilega heima í fjáraukalagafrumvarpi.

Það er nú þannig, herra forseti, að Alþingi hefur síðasta orðið um það hvað það telur eiga heima í þessu frv. og í fjáraukalögum. Ég held að það sé ekkert í þessu sem ekki er hægt að flokka undir þau atriði sem kveðið er á um í lögunum um fjárreiður ríkisins hvað varðar efnisatriði í fjáraukalagafrumvarpi.

Hins vegar er það þannig í þessu frv. að verið er að gera upp atriði, að hluta til, frá liðinni tíð. Ég nefni sem dæmi að Endurbótasjóður menningarbygginga er núna gerður upp, þ.e. það er veitt fjárheimild til þess að ráðstafa því sem áður var búið að safna í þann sjóð til þess að geta lokað honum. Það hefur ekkert verið borgað í hann á þessu ári, þetta eru eldri peningar.

Með sama hætti er verið að vinna á vegum umhvrn. í ofanflóðaverkefnum og er veitt fjárveiting til þess að ganga frá því máli með tilteknum hætti. Þrátt fyrir að þær greiðslur komi ekki endilega til framkvæmda á árinu 2003 er verið að veita fjárheimild vegna þessa máls.