Fjáraukalög 2003

Þriðjudaginn 07. október 2003, kl. 14:21:08 (232)

2003-10-07 14:21:08# 130. lþ. 5.3 fundur 87. mál: #A fjáraukalög 2003# frv., EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 130. lþ.

[14:21]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt að inngangur að spurningu minni fjallaði um það að ýmislegt gæti verið þarna sem ekki ætti þar heima, miðað við ströngustu skilyrði fjárreiðulaga. Ég var hins vegar fyrst og fremst að spyrja um hvort hæstv. ráðherra hefði hlutföllin á milli þess sem búið er að framkvæma og greiða og þess sem á eftir að framkvæma og greiða á árinu.

En vegna fullyrðingar hæstv. fjmrh. um að hann teldi ekkert í þessu frv. á gráu svæði varðandi fjárreiðulögin þá verð ég að segja, herra forseti, að það kemur mér nokkuð á óvart vegna þess að það er ýmislegt í frv. annað en hæstv. ráðherra nefndi sem a.m.k. hlýtur að teljast á gráu svæði. Ég ætla ekki að fara að rekja þau dæmi í stuttu andsvari en vil þó, vegna orða hæstv. ráðherra, nefna það að í frv. er ýmislegt sem tilheyrir árinu 2002 og jafnvel fyrr. Ég man eftir dæmi sem nær allt aftur til 1996. Það verður að teljast, ef ég man fjárreiðulögin rétt, a.m.k. á gráu svæði, eða að það eigi hreinlega ekki heima í fjáraukalögunum heldur í fjárlögum næsta árs að mestu leyti.

Ég vil aðeins nefna eitt dæmi, herra forseti, sem tilheyrir ekki árinu 2003 og er inni í þessu frv. Það eru enn að koma reikningar frá heimsókn forseta Kína til landsins. Ef mig brestur ekki minni til, þá held ég að forseti Kína hafi ekki komið á árinu 2003. Þannig að það er óhjákvæmilegt að ítreka þá spurningu við hæstv. fjmrh. hvort það geti ekki verið að það sé eitt og eitt í þessu frv. sem teljist a.m.k. á gráu svæði.